Hoppa yfir valmynd
18. febrúar 2011 Utanríkisráðuneytið

Verk sjö ungra myndlistarmanna kynnt í sendiráðinu í Berlín

Berlin-CIA-feb-2011
Berlin-CIA-feb-2011

Á þriðja tug sýningarstjóra, safnstjóra, eigenda og starfsmanna gallería auk blaðamanna kynntu sér verk sjö íslenskra myndlistamanna í  sendiherrabústað Íslands í Berlín í gærkvöldi.  Sendiráðið bætist nú í hóp sendiráða Íslands sem leggja sérstaka áherslu á að kynna samtímalist og koma á tengslum fyrir íslenska myndlistarmenn.

Gunnar Snorri Gunnarsson, sendiherra Íslands, og Dorothée Kirch, framkvæmdastjóri Kynningarmiðstöðvar íslenskrar myndlistar, efndu til kynningarinnar þar sem fjallað var um íslenska myndlist, þátttöku Íslands á Feneyjartvíæringnum í júní nk., og listamennina sjö, sem jafnframt kynntu sig og verk sín. Allir hafa þeir mikil tengsl við Þýskaland; Egill Sæbjörnsson, Elín Hansdóttir, Darri Lorenzen, Guðný Guðmundsdóttir og Hrafnkell Sigurðsson, auk Ólafs Ólafssonar og Libiu Castro,  sem verða fulltrúar Íslands  á Feneyjartvíæringnum í ár.

Sýningarstjóri íslenska skálans í Feneyjum, Ellen Blumenstein, kynnti fyrirkomulag og hugmyndir um íslenska skálann í ár en einnig gafst gestum kostur á að skoða myndbandsverk listamannaparsins. Meðal myndbandsverkanna var Stjórnarskrá lýðveldisins Íslands, þar sem tónverk Karólínu Einarsdóttur við texta íslensku stjórnarskrárinnar er flutt af kórnum Hymnodiu ásamt einsöngvurum.

Kynning á samtímamyndlist í íslenskum sendiherrabústöðum er eitt af áhersluverkefnum á sviði menningar sem utanríkisþjónustan ýtti úr vör á síðasta ári. Sendiráðin í Berlín, Kaupmannahöfn, París og Peking vinna nú þegar að verkefninu í  samstarfi við Kynningarmiðstöð íslenskrar myndlistar, og brátt bætist sendiráðið í Brussel í hópinn. Áhersla er á faglega framkvæmd og gæði, en kynningarmiðstöðin velur listamenn til þátttöku  í samráði við sendiherrana sem um leið verða bakhjarlar myndlistarmanna og leggja sig fram um að kynna og efla tengsl á því sviði.

Nánari upplýsingar um átaksverkefni á vegum utanríkisþjónustunnar er að finna hér  

Upplýsingar um íslenska myndlist og Feneyjartvíæringinn er að finna á heimasíðu Kynningarmiðstöðvar íslenskrar myndlistar   

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta