Nefnd um framtíðarskipulag Byggðastofnunar
Katrín Júlíusdóttir, iðnaðarráðherra hefur skipað nefnd til að gera tillögur um framtíðarfyrirkomulag á lánastarfsemi Byggðastofnunar.
Í nefndinni eiga sæti þau Gunnar Svavarsson, formaður, Anna Kristín Gunnarsdóttir, Valgerður Bjarnadóttir, Herdís Á Sæmundardóttir, Lárus Hannesson, Sturla Böðvarsson og Finnbogi Vikar.
Nefndin skal fara yfir lög og reglugerðir er varða lánastarfsemi Byggðastofnunar og meta hvort tilefni sé til breytinga á þeim í ljósi breytinga sem orðið hafa á fjármálamarkaðinum og þess að eigið fé stofnunarinnar hefur ítrekað farið niður fyrir 8% lögbundið lágmark.
Í janúar sl. skilaði starfshópur á vegum iðnaðarráðuneytisins skýrslu um málefni Byggðastofnunar og mun nefndin hafa hana til hliðsjónar í vinnu sinni.
Nefndin skal skila tillögum eigi síðar en 1. maí nk.