Björn Karlsson skipaður forstjóri Mannvirkjastofnunar
Umhverfisráðherra hefur skipað Björn Karlsson sem forstjóra Mannvirkjastofnunar frá og með 1. mars til fimm ára. Björn starfaði sem forstjóri Brunamálastofnunar árin 2001 til 2010 og var settur forstjóri Mannvirkjastofnunar frá 1. janúar 2011.
Sex sóttu um starf forstjóra Mannvirkjastofnunaren umsóknarfrestur rann út 21. janúar síðastliðinn. Umhverfisráðuneytið skipaði þriggja manna nefnd til að fara yfir og leggja mat á umsóknirnar. Nefndina skipuðu Gylfi Dalmann Aðalsteinsson, dósent við Háskóla Íslands, Guðrún Ólafsdóttir, verkfræðingur hjá Verkís og Ingibjörg Ásgeirsdóttir, forstjóri Námsgagnastofnunar. Matsnefndin lagði til að Björn yrði skipaður forstjóri stofnunarinnar.
Björn Karlsson lauk doktorsprófi við Byggingarverkfræðiskor Háskólans í Lundi í Svíþjóð árið 1992 og starfaði við kennslu, rannsóknir og stjórnun við sama háskóla í rúman áratug. Hann hefur einnig kennt við Umhverfis- og byggingarverkfræðideild Háskóla Íslands.
Ný lög um mannvirki komu til framkvæmda 1. janúar á þessu ári. Við gildistöku laganna var Mannvirkjastofnun sett á fót sem tók við málefnum Brunamálastofnunar auk verkefna er varða byggingarmál og rafmagnsöryggismál. Samhliða því var Brunamálastofnun lögð niður. Markmið nýrra laga um mannvirki er að auka öryggi og gæði mannvirkja, efla neytendavernd, bæta skilvirkni í stjórnsýslu mannvirkjamála og tryggja faglega yfirsýn í málaflokknum og samræma byggingareftirlit um land allt. Mannvirkjastofnun hefur einnig það hlutverk að hafa eftirlit með og vinna að samræmingu brunavarna í landinu, hafa yfirumsjón með rafmagnsöryggismálum og stuðla að samvinnu þeirra sem starfa að brunavörnum og rafmagnsöryggi og reka Brunamálaskólann.