Harpa stólar á íslenska húsgagnaframleiðendur
Íslenskur húsgagnaiðnaður verður í stóru hlutverki í tónlistar- og ráðstefnuhúsinu Hörpu en meirihluti almennra húsgagna er hannaður af íslenskum hönnuðum og þau verða, með örfáum undantekningum, framleidd hér á landi.
Í ráðstefnusali Hörpunnar hefur verið valinn stóllinn Magni en hann er hannaður af Valdimar Harðarsyni arkitekt . Hann er framleiddur á Íslandi hjá Stáliðjunni í Kópavogi og Zenus bólstrun. Magni verður einnig í hvíldar og kaffirými listamanna. Samtals verða framleiddir 970 stólar af Magna fyrir Hörpu.
Fyrir sameiginleg rými listamanna og annarra notenda hússins hefur verið valin stóla- og sófalína sem kallast Dímon og er hönnuð af Erlu Sólveigu Óskarsdóttir húsgagna- og iðnhönnuði. Þessi húsgögn koma frá húsgagnaversluninni Epal.
Skrifstofuhúsgögnin í Hörpu verða framleidd af Axis húsgögnum í Kópavogi. Þau verða á skrifstofum rekstrarfélags hússins, Sinfóníuhljómsveitar Íslands og Íslensku óperunnar.
Fyrir almenn rými í anddyri efndi Harpa til hönnunarsamkeppni sl. haust fyrir laus sæti ofl. og varð tillaga þeirra Kristínar Aldan Guðmundsdóttur og Helgu Sigurbjarnadóttur hlutskörpust og verða þau húsgögn framleidd af G.Á. Bólstrun, Pelko og Stjörnustál.