Frjálsi dagurinn 25. febrúar 2011
Mennta- og menningarmálaráðuneytið stendur fyrir Frjálsa deginum 25. febrúar 2011 í samvinnu við Verkmenntaskólann á Akureyri og Menntaskólann á Akureyri. Frjálsi dagurinn er dagur helgaður notkun og innleiðingu frjáls og opins hugbúnaðar í framhaldsskólum og háskólum á Íslandi og er hluti af verkefni sem Verkefnastjórn um upplýsingasamfélagið styrkir.
Mennta- og menningarmálaráðuneytið er í forsvari fyrir þessu verkefni sem byggist á stefnu stjórnvalda frá því í mars 2008 en sú stefna nær til allra stofnana sem eru reknar fyrir opinbert fé en í henni segir að þess „.. skuli gætt að gefa frjálsum og opnum hugbúnaði sömu tækifæri og séreignarhugbúnaði ..”.
Frjálsi dagurinn hefst kl. 10 í Menntaskólanum á Akureyri og þar sem þátttakendur fræðast um hvernig frjáls og opinn hugbúnaður er notaður í skólanum. Þar á eftir verða umræður um reynslu skóla af notkun á frjálsum hugbúnaði. Eftir hádegi fer dagskráin fram í Verkmenntaskólanum á Akureyri þar sem sagt verður frá reynslu skólans af innleiðingu á frjálsum og opnum hugbúnaði. Í framhaldi af því verða kynningar um myndvinnslu með frjálsum hugbúnaði, miðlæga gagnagrunna, samfélagsvefi í kennslu og inn á milli eru umræður um ýmis málefni sem tengjast frjálsum hugbúnaði.
Á alþjóðlegum vettvangi hefur farið fram mikil umræða um þá möguleika sem frjáls og opinn hugbúnaður býður upp á og þjóðarhagkvæmni þess að stuðla að auknu stafrænu frelsi. Evrópusambandið og Norðurlandaráð hafa mælst til þess að þjóðir stuðli að frjálsri samkeppni á hugbúnaðarmarkaði þar sem frjáls og opinn hugbúnaður er raunverulegur valkostur. Í stefnu stjórnvalda á Íslandi segir að „stuðlað verði að því að nemendur í menntastofnunum landsins fái tækifæri til að kynnast og nota frjálsan hugbúnað til jafns við séreignarhugbúnað”. Þetta þýðir að menntastofnanir gegna mikilvægu hlutverki í að nota og kynna frjálsan hugbúnað fyrir nemendum og gefa þeim þannig tækifæri til að kynnast honum og nota til jafns við séreignarhugbúnað.