Stofnun SÞ um kynjajafnrétti og valdeflingu kvenna – UN Women – tekur formlega til starfa
Stofnun Sameinuðu þjóðanna um kynjajafnrétti og valdeflingu kvenna, UN Women, tekur formlega til starfa í dag. Af því tilefni er efnt til sérstakrar dagskrár í höfuðstöðvum Sameinuðu þjóðanna í New York, en þar fer nú fram 55. fundur Kvennanefndar Sameinuðu þjóðanna. Í tillögu til þingsályktunar um alþjóðlega þróunarsamvinnu, sem utanríkisráðherra mælti fyrir á Alþingi 17. febrúar sl., er sérstök áhersla lögð á jafnréttismál sem þverlægt áherslusvið og UN Women tilgreind sem ein fjögurra lykilstofnana í þróunarstarfi Íslands.
Fjórar stofnanir, sem áður fjölluðu um jafnréttismál innan Sameinuðu þjóðanna, voru sameinaðar um síðastliðin áramót á grundvelli sérstakrar ályktunar allsherjarþings undir merkjum hinnar nýju stofnunar. Stofnanirnar eru: Deild fyrir eflingu kvenna (DAW), Alþjóðleg rannsóknar- og þjálfunarstofnun fyrir eflingu kvenna (INSTRAW), Skrifstofa sérstaks ráðgjafa í jafnréttismálum og eflingu kvenna (OSAGI) og Þróunarsjóður í þágu kvenna (UNIFEM). Framkvæmdastjóri UN Women er Michelle Bachelet, fyrrverandi forseti Chile.
UN Women er einkum ætlað að greiða fyrir auknu jafnrétti og valdeflingu kvenna í starfi Sameinuðu þjóðanna. Helstu áherslur UN Women verða afnám ofbeldis gegn konum, friður og öryggi, þátttaka kvenna á öllum sviðum þjóðlífs og aðgengi að leiðtogastöðum, efnahagsleg valdefling kvenna, áætlanagerð og fjárlög, mannréttindi og þróun. Einnig mun stofnunin hafa þýðingarmiklu hlutverki að gegna við framkvæmd þúsaldarmarkmiða Sameinuðu þjóðanna.
Jafnrétti kynjanna og valdefling kvenna eru mikilvægir þættir í utanríkisstefnu Íslands og hefur Ísland stutt UNIFEM dyggilega á liðnum árum. Var Ísland t.d. í þriðja sæti þeirra ríkja sem leggja mest til stofnunarinnar miðað við höfðatölu árið 2009.