Maxímús Músíkús gerir víðreist á netinu
Það eru ekki bara hámenntaðir doktorar og viðskiptafrumkvöðlar sem fá styrk úr Tækniþróunarsjóði, á meðal styrkþega er einnig músíkölsk mús sem ætlar að gera víðreist um heiminn með tónlistarskólann sinn – ætli það megi ekki kalla hana viðskiptafrumkvöðlamús.
Fyrirtækið Maxímús Músíkús hlaut nýlega styrk úr Tækniþróunarsjóði til að vinna að verkefni í samstarfi við fyrirtækið Fancy Pants Global. Verkefnið snýr að uppsetningu á tónlistarskóla Maxímúsar eða Maxi´s Music School sem er vefsíða þar sem tónlistarfræðsla er sett fram í formi gagnvirks fjölmiðils með ævintýralegri og fjörlegri nálgun.
Maxímús Músíkús er góðkunningi íslenskra barna og foreldra. Gefnar hafa verið út bækur um hana og sjálf Sinfóníuhljómsveit Íslands hefur einnig flutt tónleika henni til heiðurs.
Tónlistarskólinn Maxímúsar á vefnum hefur það að markmiði að opna heim tónlistar fyrir börnum og verður íslenskum börnum og börnum frá þeim löndum sem Maxímús hefur heimsótt boðin áskrift að vefsíðunni.