Ægir konungur hafsins ... og raforkunnar!
Rafmagnsvirkjanir framtíðarinnar gætu verið staðsettar úti í sjó ... þökk sé óendanlegri orku sjávarfallanna. Fyrirtækið Valorka vinnur að þróun hreyfils sem virkjar hægstraum, s.s. sjávarfallaorku. Hverfillinn er af svokallaðri gegnumstreymisgerð, þ.e. ásinn er þvert á straumstefnuna. Þessi tækni er talin hafa meiri möguleika en svokallaðir skrúfuhverflar til nýtingar straumhraða sem algengur er utan fjarða og byggist það mat m.a. á stórum átaksflötum.
Sjávarfallaorka er gríðarlega stór orkuauðlind sem nánast ekkert hefur verið nýtt, en mörg ríki beina nú athygli að henni sem staðgengli fyrir jarðefnaeldsneyti. Markmið Valorku er að þróa tækni sem virkjar sjávarföllin með hagkvæmum hætti og lágmarks áhrifum á umhverfið.
Valorka fékk nýverið styrk frá Tækniþróunarsjóði til áframhaldandi þróunar á tækninni.