Nú er komið að Svíum að taka upp íslenskar nýjungar í skólastarfi!
Þekkingarfyrirtækið Mentor hefur í góð 20 ár þróað upplýsingakerfi fyrir skóla og heimili sem heldur utan um námsframvindu nemenda. Kjarninn í hugmyndafræði Mentors felst í þeirri hugsun að „allir nemendur eigi að ná settum markmiðum“.
Vefsvæðið www.mentor.is er hjartað í starfinu. Það er notað í 170 grunnskólum og um 60 leikskólum á Íslandi auk þess sem fyrstu íþróttafélögin og tónlistarskólarnir hafa tekið kerfið í notkun. Að meðaltali skrá sig rúmlega tuttugu þúsund notendur inn í Mentor á degi hverjum sem gerir það að einu mest notaða vefkerfi landsins.
En sigurganga Mentor einskorðast ekki við Ísland. Í Svíþjóð er InfoMentor notað í yfir 700 skólum í um 100 sveitarfélögum og á árinu 2010 komu um 9000 kennarar, skólastjórnendur og starfsmenn skólaskrifstofa á námskeið og ráðstefnur fyrirtækisins í Svíþjóð. Fyrirtækið hefur einnig haslað sér völl í Sviss, Þýskalandi og á Englandi og þar eru miklir möguleikar.
Á Íslandi starfa 23 starfsmenn þar af eru 15 tölvunarfræðingar sem vinna við þróun kerfisins og í Svíþjóð eru 18 starfsmenn sem vinna við ráðgjöf, sölu og þjónustu við sænska viðskiptavini (www.infomentor.se).
Mentor hefur fengið styrki frá Tækniþróunarsjóði til að þróa nýjar einingar í kerfinu.