Hoppa yfir valmynd
7. mars 2011 Dómsmálaráðuneytið

Auglýsing um þjóðaratkvæðagreiðslu 9. apríl 2011

Innanríkisráðuneytið hefur birt neðangreinda auglýsingu um þjóðaratkvæðagreiðslu 9. apríl 2011.

Með vísun til 5. gr. laga um framkvæmd þjóðaratkvæðagreiðslna, nr. 91/2010, sbr. 26. gr. stjórnarskrárinnar, nr. 33/1944, er hér með ákveðið að þjóðaratkvæðagreiðsla skuli fara fram hinn 9. apríl 2011 um gildi laga nr. 13/2011 um heimild til handa fjármálaráðherra til að staðfesta samninga, sem áritaðir voru í London 8. desember 2010, um ábyrgð á endurgreiðslu Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta til breska og hollenska ríkisins á kostnaði af greiðslu lágmarkstryggingar til innstæðueigenda í útibúum Landsbanka Íslands hf. í Bretlandi og Hollandi og greiðslu eftirstöðva og vaxta af þeim skuldbindingum. Lög nr. 13/2011 voru samþykkt á Alþingi hinn 16. febrúar 2011 en forseti Íslands synjaði þeim staðfestingar. Því ber að leggja lögin undir atkvæði allra kosningarbærra manna í landinu til samþykktar eða synjunar með leynilegri atkvæðagreiðslu.

Í atkvæðagreiðslunni verður spurt um eftirfarandi:

Lög nr. 13/2011 kveða á um heimild til handa fjármálaráðherra til að staðfesta samninga, sem áritaðir voru í London 8. desember 2010, um ábyrgð á endurgreiðslu Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta til breska og hollenska ríkisins á kostnaði af greiðslu lágmarkstryggingar til innstæðueigenda í útibúum Landsbanka Íslands hf. í Bretlandi og Hollandi og greiðslu eftirstöðva og vaxta af þeim skuldbindingum.

Lögin voru samþykkt á Alþingi hinn 16. febrúar 2011 en forseti Íslands synjaði þeim staðfestingar.

Eiga lög nr. 13/2011 að halda gildi?

Svarkostirnir eru:

Já, þau eiga að halda gildi.

Nei, þau eiga að falla úr gildi.

Atkvæðagreiðslan fer fram á sömu kjörstöðum og notast er við í almennum kosningum. Munu einstök sveitarfélög auglýsa með venjulegum hætti nánar um kjörstaðina skömmu fyrir atkvæðagreiðsluna, m.a. hvenær þeir eru opnir,  hvar þeir eru,  hvernig skipt er í kjördeildir, o.fl.  Kjósendur eru beðnir að kynna sér vel þær upplýsingar. Kosningarrétt við þjóðaratkvæðagreiðsluna eiga þeir kjósendur sem eiga kosningarrétt til Alþingis, samkvæmt 2. gr. laga nr. 91/2010, sbr. 1. gr. laga nr. 24/2000.

Kjörskrár verða gerðar á grundvelli kjörskrárstofna sem Þjóðskrá Íslands lætur sveitarstjórnum í té. Kjörskrár miðast við skráð lögheimili í viðkomandi sveitarfélagi hinn 19. mars 2011. Skulu kjörskrár lagðar fram hjá sveitarstjórnum almenningi til sýnis eigi síðar en 30. mars nk. á þann hátt á hverjum stað sem venja er þar.

Atkvæðagreiðsla utan kjörfundar hefst 16. mars 2011.

Á vefsíðu Alþingis, althingi.is, undir dálkinum Efni um Icesave, er að finna frumvarpið sem varð að lögum nr. 13/2011, ásamt öllum skjölum er varða meðferð þess á þinginu.

Innanríkisráðuneytinu, 7. mars 2011.

  • Sjá nánar um framkvæmd þjóðaratkvæðagreiðslunnar á kosningavef innanríkisráðuneytisins, www.kosning.is.

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta