Tveir sérfræðingar til starfa í Mið-Austurlöndum
Nýlega héldu tveir sérfræðingar til starfa á vegum Íslensku friðargæslunnar í Mið-Austurlöndum, Margrét Rögn Hafsteinsdóttir, hjúkrunarfræðingur, og Ágúst Flygenring, stjórnmálafræðingur. Þau sinna málefnum íbúa herteknu svæðanna og palestínskra flóttamanna.
Margrét Rögn starfar á vegum Barnahjálpar Sameinuðu þjóðanna, UNICEF á Vesturbakkanum, með aðsetur í Jerúsalem. Verkefni hennar felast í samhæfingu heilbrigðisþjónustu fyrir börn og snúa meðal annars að brjóstagjöf, rannsóknum á heilsufari og næringu barna undir 5 ára aldri og kvenna á barneignaraldri og stuðningi við mæður eftir fæðingu.
Ágúst vinnur á skrifstofu Palestinsku flóttmannahjálparinnar, UNRWA, í Beirút í Líbanon. Stór hluti þeirra tæplega fimm milljóna Palestínumanna sem hrakist hafa frá heimkynnum sínum eru í flóttamannabúðum í Líbanon. Þar gegnir UNRWA lykilhlutverki, meðal annars í menntamálum, heilsugæslu og hvers kyns neyðar- og félagsþjónustu.
Íslenskir friðargæsluliðar hafa um nokkurt skeið starfað í Mið-Austurlöndum hjá ýmsum alþjóðastofnunum. Þeir hafa aðallega sinnt málefnum fólks á herteknu svæðunum og palestínskra flóttamanna.
Auk þeirra sem að ofan eru nefnd starfa tveir íslenskir sérfræðingar við mannúðaraðstoð á svæðinu. Annar er í höfuðstöðvum UNRWA í Amman og hinn hjá UNRWA í Jerúsalem.
Sveinn H. Guðmarsson, fréttamaður, sneri nýlega heim eftir átta mánaða starf sem upplýsingafulltrúi hjá UNICEF í Jemen.