Iðnaðarráðherra fundar með Vestfirðingum um orkumál og atvinnusköpun.
Orkumál og atvinnusköpun á Vestfjörðum var yfirskriftin á tveimur fundum sem Katrín Júlíusdóttir, iðnaðarráðherra hélt á mánudaginn á Patreksfirði og Ísafirði. Tilefni fundanna var að kynna og ræða nýútgefna skýrslu um Orkuöryggi á Vestfjörðum og auk heldur að ræða almennt um þau fjölbreyttu verkefni sem heyra undir iðnaðarráðuneytið. Með í för voru Guðni A Jóhannsson, orkumálastjóri, Aðalsteinn Þorsteinsson, forstjóri Byggðastofnunar, Ólöf Ýrr Atladóttir, ferðamálastjóri og Guðmundur Ingi Ásmundsson, aðstoðarforstjóri Landsnets. Forstjóri Nýsköpunarmiðstöðvar Íslands átti að vera með en hann forfallaðist á síðustu stundu.
Það er skemmst frá því að segja að fundirnir tókust með afbrigðum vel , heimamenn fjölmenntu og umræður í lokin voru voru bæði hreinskiptar og gagnlegar. Mikið var rætt um mikilvægi þess að tryggja Vestfirðingum sambærilegt orkuöryggi og öðrum landsmönnum – það ásamt betri samgöngum væru forsendur þess að tækist að byggja upp sterkt atvinnulíf. Meðal annarra mála er bar á góma má nefna raforkuverð, húshitunarkostnað, málefni tengd Byggðastofnun og ferðamál.
Í lokaorðum sínum á fundunum sagði Katrín það vera sinn einbeitta vilja að nú verði gengið af festu í að finna lausn á orkumálum Vestfirðinga. Í skýrslunni væru lagðar til ákveðnar aðgerðir og nú þyrfti að koma fram með skýra framkvæmdaáætlun.
Hópurinn notaði tækifærið og heimsótti Kalkþörungaverksmiðjuna á Bíldudal