Hoppa yfir valmynd
9. mars 2011 Félags- og vinnumarkaðsráðuneytið, Heilbrigðisráðuneytið

Bifröst á rauðum sokkum

Góðir gestir.
Það er vel við hæfi að Bifröst bregði sér í rauða sokka í dag í tilefni af alþjóðlegum baráttudegi kvenna.

Dagur sem þessi er mikilvægur til að minna á mikilvæg málefni, hvetja til umræðu og draga fram helstu baráttumálin. Við skulum hins vegar hafa hugfast að vinna að jafnrétti kynja er ekkert áhlaupaverk, heldur viðfangsefni sem við eigum að fást við alla daga ársins í öllu sem við tökum okkur fyrir hendur. Í yfirfærðri merkingu má því segja að við ættum öll að ganga í rauðum sokkum dag hvern.

Á fundinum hér í dag var ég beðinn um að fara yfir stöðu og þróun í jafnréttismálum og helstu verkefnin framundan. Af mörgu er að taka og ég gæti hæglega verið hér í allan dag ef ég ætlaði að gera þessu góð skil. Ég lofaði hins vegar stuttri yfirferð og reyni að standa við það.

Á jafnréttisþingi 4. febrúar síðastliðinn lagði ég fram skýrslu mína um stöðu og þróun jafnréttismála og gerði grein fyrir helstu áhersluatriðum þingsályktunar um áætlun í jafnréttismálum sem nú er til umfjöllunar á Alþingi. Ég hvet ykkur öll til að kynna ykkur áætlunina og sömuleiðis skýrsluna um stöðu og þróun þessara mála þar sem meðal annars er fjallað um jafnrétti kynjanna í tölum.

Þingsályktunartillagan er byggð upp með nokkru öðru sniði en áður. Í stað þess að telja upp verkefni eftir hverju ráðuneyti er henni skipt í átta kafla eftir áherslusviðum ríkisstjórnarinnar. Þessir kaflar varða stjórnsýsluna, vinnumarkað og kynbundinn launamun, kyn og völd, kynbundið ofbeldi, menntir og jafnrétti, karla og jafnrétti, alþjóðastarf og loks eftirfylgni og endurskoðun verkefna á þessum sviðum.

Undir hverjum kafla eru talin upp þau verkefni sem unnið verður að, þau tímasett, ábyrgðaraðilar tilgreindir og kostnaður vegna þeirra áætlaður. Verkefnin eru samtals 38 og er gerð grein fyrir hverju þeirra í þingsályktunartillögunni. Í samræmi við samstarfsyfirlýsingu ríkisstjórnarinnar til 2009, um að styrkja stöðu jafnréttismála í stjórnkerfinu, var sett á fót ráðherranefnd um jafnrétti kynja og er hlutverk hennar að leiða og samhæfa jafnréttisstarf stjórnvalda. Ráðherranefndin gegnir virku hlutverki við að fylgja framkvæmdaáætluninni eftir.

Sem dæmi um mikilvæg verkefni nefni ég:

  • Samþættingu kynjasjónarmiða við stefnumörkun, áætlanagerð og ákvarðanatöku.
  • Kynjaða fjárlagagerð sem innleidd verður í áföngum.
  • Gerð nýrrar áætlunar um aðgerðir gegn kynbundnu ofbeldi.
  • Endurskoðun jafnréttisáætlana ráðuneytanna.
  • Kynbundið starfsval og aðgerðir til breytinga.
  • Eflda jafnréttisfræðslu á öllum skólastigum.
  • Lok vinnu við gerð jafnréttisstaðla.
  • Innleiðingu vegvísis um launajafnrétti.
  • Útgáfu leiðbeiningabæklings um túlkun ákvæða um launajafnrétti.
  • Loks gerð gátlista fyrir forstöðumenn við endurskoðun launa með launajafnrétti að markmiði.

 Ég legg áherslu á að jafnréttismál eru hvorki gæluverkefni né eitthvað sem gripið er til í hjáverkum ef tími vinnst til. Þótt við stöndum frammi fyrir því að þurfa að spara og gæta aðhalds á öllum sviðum þá þarf að vera alveg ljóst að það má aldrei líta á þennan málaflokk sem afgangsstærð. Við spörum ekki í vinnu að jafnréttismálum umfram önnur mikilvæg verkefni, enda tel ég að slíkur sparnaður væri allt of dýru verði keyptur þegar horft er til þeirra hagsmuna sem eru í húfi.

Þótt hægt miði í mörgum málum jafnréttis eru þó ýmsir sigrar sem ástæða er til að fagna. Eftir síðustu alþingiskosningar voru konur tæp 43% þingmanna og hefur hlutur kvenna á þingi aldrei verið meiri. Konur voru 40% sveitarstjórnarfulltrúa eftir síðustu kosningar, fyrsta konan hér á landi varð forsætisráðherra 1. febrúar 2009 og framan af starfstíma ríkisstjórnarinnar var hlutur kynjanna jafn.

Alþjóðaefnahagsráðið leggur reglulega mat á stöðu jafnréttis kynja meðal þjóða. Samkvæmt nýjustu mælingum skipa Norðurlöndin efstu sætin og það er sérstaklega ánægjulegt að Ísland vermir efsta sætið. Við skorum hátt vegna þátta sem varða stjórnmálaþátttöku, menntun, atvinnuþátttöku og heilbrigði og getum verið stolt af því. Kynbundinn launamunur og rýr hlutur kvenna í stjórnunarstöðum er okkur hins vegar Þrándur í Götu og þar verðum við að gera betur.

Rannsóknum á kynbundnum launamun ber ekki fyllilega saman en við vitum að munurinn er fyrir hendi og það getum við ekki sætt okkur við. Samkvæmt gögnum Hagstofu Íslands árið 2010 er munurinn 7,3% en 10,1% samkvæmt könnun VR frá 2009. Ég ætla líka að hlaupa á nokkrum staðreyndum um hlut kvenna í ábyrgðarstöðum, hjá hinu opinbera annars vegar og hjá íslenskum fyrirtækjum hins vegar:

Hið opinbera

  • Forstöðumenn ríkisstofnana = 70% karlar – 30% konur (2010)
  • Jafnt hlutfall kynja í embættum ráðuneytisstjóra (2011)
  • Sýslumenn = 75% karlar – 25% konur (2011)
  • Héraðsdómarar = 65% karlar – 35% konur (nóvember 2010)
  • Hæstaréttardómarar = 8 karlar – 1 kona (2011)
  • Sendiherrar = 73,5% karlar – 26,5% konur (2011)

Stjórnunarstöður hjá íslenskum fyrirtækjum (2009)

  • Framkvæmdastjórar = Karlar 81% – konur 19%
  • Stjórnarformenn = Karlar 77% – Konur 23%
  • Stjórnarmenn = Karlar 77% – Konur 23%

 Þessar tölur segja meira en mörg orð og við eigum að nota þær sem brýningu til þess að gera betur.

Ýmsar leiðir eru færar til að ná árangri í jafnréttismálum. Annars vegar eru beinar aðgerðir sem fela í sér lagasetningu, reglur, breytt vinnulag og skýrar aðgerðaáætlanir. Hins vegar eru óbeinar aðgerðir sem fela í sér fræðslu og áróður til að ná fram viðhorfsbreytingum, auka skilning á jafnréttishugtakinu, efla samfélagslega ábyrgð og virðingu fyrir mannréttindum.

Ég ætla að nefna nokkur dæmi um beinar aðgerðir í stórum og mikilvægum málum. Í fyrsta lagi nefni ég aðgerðaáætlun til fjögurra ára frá árinu 2006 til að sporna gegn kynbundnu ofbeldi, þar sem áhersla hefur verið lögð á rannsóknir, kortlagningu vandans og fræðslu fyrir fólk sem þarf að takast á við kynbundið ofbeldi og afleiðingar þess í starfi. Á næstunni verður lögð skýrsla fyrir Alþingi með tillögum um frekari aðgerðir þar sem byggt er á þessari vinnu. Þá er unnið er að gerð nýrrar aðgerðaáætlunar til fjögurra ára þar sem áhersla verður lögð á áhersla lögð á að skoða samhengi kynbundinna ofbeldisbrota, saksóknar vegna þeirra og meðferðar í dómskerfinu.

Í mars 2009 var samþykkt aðgerðaáætlun gegn mansali sem gildir til ársloka 2012. Í tengslum við það var skipað sérfræði- og samhæfingarteymi um mansal til að tryggja yfirsýn og þekkingu á mansalsmálum, fylgja vísbendingum um mansal, bera kennsl á fórnarlömb, tryggja þeim vernd og aðstoð, auk þess að sinna skráningu ætlaðra mansalsmála, veita fræðslu, hafa eftirlit með framkvæmd aðgerðaáætlunarinnar og vera stjórnvöldum til ráðgjafar í mansalsmálum.

Með breytingu á almennum hegningarlögum voru kaup á vændi gerð ólögleg – mál sem mikið hefur verið deilt um en ég er sannfærður um að hafi verið afar þýðingarmikil ákvörðun. Sama máli gegnir um bann við nektarsýningum með breytingu sem gerð var á lögum um veitingastaði, gististaði og skemmtanahald.

Aðgerðir til að eyða kynbundnum launamun eru mér mjög ofarlega í huga og sömuleiðis nauðsyn þess að auka hlut kvenna í stjórnum stofnana og fyrirtækja. Fyrir nokkru var samþykkt á Alþingi lagabreyting sem felur í sér ákvæði um kynjakvóta í stjórnum opinberra hlutafélaga og einkahlutafélaga. Kveðið er á um 40% hlut hvors kyns að lágmarki og tekur ákvæðið gildi í september 2013. Að mati stjórnvalda var lagasetning óhjákvæmileg í ljósi þess að lítið sem ekkert hefur gengið að jafna stöðuna.

Það er mikilvægt að fyrirtæki uppfylli lagaskyldu þegar ákvæðið tekur gildi og augljóslega þarf að vinna hratt. Velferðarráðuneytið og efnahags- og viðskiptaráðuneytið hafa ákveðið að ýta úr vör sameiginlegu átaki til að vinna að þessu máli og ég vonast eftir góðu samstarfi við Samtök atvinnulífsins með skjótan árangur að markmiði.

Góðir fundarmenn.

Árið 1997 var settur á fót lánatryggingasjóður kvenna sem starfræktur var um árabil í þeim tilgangi að styðja konur til þátttöku og nýsköpunar í atvinnulífinu. Starfsemi sjóðsins hefur legið niðri í nokkur ár en nú hefur verið ákveðið að endurvekja hann – og gott betur því skömmu fyrir hádegi í dag komum við saman, iðnaðarráðherra, borgarstjórinn í Reykjavík og ég og undirrituðum nýtt samkomulag um starfsemi sjóðsins sem gildir til ársloka 2014. Í sjóðnum eru rúmar 70 milljónir króna. Veittar verða ábyrgðir á lánum samkvæmt samþykktum og lánareglum sjóðsins og einnig er kveðið á um ráðgjöf og handleiðslu í tengslum við veitingu ábyrgða. Ég bendi ykkur á heimasíðu velferðarráðuneytisins til að kynna ykkur nánar samkomulagið sem undirritað var í dag. 

Ég hef stiklað á stóru um aðgerðir til að stuðla að jafnrétti kynja en læt ekki staðar numið án þess að nefna aðkomu karla að jafnréttisstarfi. Það vill svo til að kynin eru tvö og málefnið varðar þau bæði. Í byrjun árs setti ég á fót starfshóp um karla og jafnrétti sem gera á tillögur um hvernig auka megi þátttöku karla í umræðum um jafnrétti kynja og jafnréttisstarfi. Hann á einnig að skoða hvernig breikka megi náms- og starfsval karla og vinna gegn kynskiptum vinnumarkað og skoða áhrif staðalmynda kynjanna á stöðu karla í samfélaginu, hlutverkaval og þátttöku þeirra í verkefnum fjölskyldunnar.

Enn á ég óreifað stórt mál sem við verðum að taka til umræðu og skoðunar í ljósi aðstæðna. Hér á ég við mismunandi áhrif efnahagskreppunnar á kynin, hvar hann kemur helst fram, hvernig og hverjar eru mögulegar afleiðingar til lengri og skemmri tíma og hvað við getum gert til að fyrirbyggja neikvæð áhrif kreppunnar á jafnrétti kynja.

Velferðarvaktin og Jafnréttisráð hafa látið vinna samantekt á opinberum tölulegum gögnum sem varpa ljósi á þessi mál og er skýrsla um þetta væntanleg innan skamms. Þar er meðal annars fjallað um stöðu foreldra ungra barna, einstæðar mæður, fjárhagsvanda heimilanna, áhrif kynbundins vinnumarkaðar á atvinnu og atvinnuleysi, um heimilisofbeldi, kynferðisbrot, barnaverndarmál, frjósemi og lyfjaneyslu, svo eitthvað sé nefnt. 

Góðir gestir.

Ég ætla að láta hér staðar numið, þótt margt sé ótalið af mikilvægum verkefnum til að vinna að jafnri stöðu og jöfnum rétti karla og kvenna. Að lokum vil ég minna á að þótt stjórnvöld hafi ríkum skyldum að gegna í starfi að jafnréttismálum og geti haft mikil áhrif á framvinduna þá veltur árangurinn fyrst og fremst á virkri þátttöku almennings og sterkri samfélagsvitund þar sem réttlæti og virðing fyrir mannréttindum eru höfð að leiðarljósi.

Guðbjartur Hannesson flutti ávarpið á fundi sem haldinn var á Bifröst í tilefni af alþjóðlegum baráttudegi kvenna, 8. mars 2011.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta