Sautján útskrifast frá Sjávarútvegsskóla Háskóla Sameinuðu þjóðanna
Í gær, 8. mars, útskrifuðust sautján nemendur frá fjórtán löndum eftir sex mánaða nám við Sjávarútvegsskóla Háskóla Sameinuðu þjóðanna (HSÞ). Þetta er í þrettánda sinn sem nemendur útskrifast frá Sjávarútvegsskólanum og hafa samtals 223 sérfræðingar frá 43 löndum lokið námi við skólann. Frá stofnun skólans hafa konur verið 35% útskriftarnema.
Námið felst í markvissri þjálfun sem lýkur með verkefni sem hvert um sig tekur á málefni sem nemendurnir eru að kljást við í sínu heimalandi. Að þessu sinni sérhæfðu nemendurnir sig á þremur megin sviðum: gæðastjórnun fiskafurða og –vinnslu, stefnumótun og áætlanagerð og stjórnun sjávarútvegsfyrirtækja og markaðssetningu fiskafurða.
Starfsemi Sjávarútvegsskólans er fjármögnuð af íslenskum stjórnvöldum og heyrir til framlaga utanríkisráðuneytisins til þróunarmála. Þátttaka Íslands í alþjóðlegri þróunarsamvinnu byggist á Þúsaldarmarkmiðum Sameinuðu þjóðanna. Í samræmi við þau er megináhersla lögð á að uppræta fátækt, aukið jafnrétti kynjanna, málefni kvenna og barna, heilsuvernd, menntun og sjálfbær þróun, s.s. fiski- og orkumál. Stuðningur við Háskóla Sameinuðu þjóðanna á Íslandi er eitt af lykilverkefnum á sviði þróunarsamvinnu, en auk Sjávarútvegsskólans starfar á Íslandi Jarðhitaskóli HSÞ og Landgræðsluskóli HSÞ.
Sjávarútvegsskólinn leggur sérstaka áherslu á lönd í Afríku, sunnan Sahara, og smáeyþróunarríki, en einnig koma nemendur frá ýmsum löndum Asíu. Á hverju ári bætast ný lönd í hóp þeirra sem senda sérfræðinga í skólann og í ár eru nemendur í fyrsta sinn frá Barbados, Óman og Indónesíu.
Til viðbótar því sex mánaða námi sem fram fer á Íslandi skipuleggur Sjávarútvegsskólinn stutt námskeið í þróunarlöndum í samvinnu við heimamenn og alþjóðlegar stofnanir, en á árinu 2010 voru haldin fjögur slík námskeið. Áætlað er að á árinu 2011 verði námskeiðin að lágmarki sjö talsins. Skólinn veitir einnig skólastyrki fyrir nemendur sem útskrifast úr skólanum til framhaldsnáms á Íslandi. Hingað til hafa sjö nemendur lokið mastersnámi á Íslandi og þrír hafa lokið doktorsnámi, en nú stunda tveir nemendur mastersnám og sex doktorsnám.