Óskað eftir tilnefningum til náttúruverndarviðurkenningar Sigríðar í Brattholti
Náttúruverndarviðurkenning Sigríðar í Brattholti verður afhent í annað sinn á degi umhverfisins 25. apríl næstkomandi. Viðurkenningin er veitt einstaklingi sem hefur unnið markvert starf á sviði náttúruverndar. Umhverfisráðuneytið óskar eftir tilnefningum til viðurkenningarinnar. Tilnefningar þurfa að berast umhverfisráðuneytinu eigi síðar en 1. apríl 2011, merktar Náttúruverndarviðurkenning Sigíðar í Brattholti, á póstfangið [email protected] eða með pósti í umhverfisráðuneytið, Skuggasundi 1, 150 Reykjavík.
Sigríður Tómasdóttir, fæddist 24. febrúar 1871 í Brattholti. Sigríður var náttúruverndarsinni sem lagði á sig mikið erfiði í baráttu gegn virkjun Gullfoss og hafði sigur. Hún var því brautryðjandi á sviði náttúruverndarmála hér á landi og hefur æ síðan verið íslenskum náttúruverndarsinnum fyrirmynd.
Svandís Svavarsdóttir umhverfisráðherra afhenti Sigrún Helgadóttur náttúruverndarviðurkenningu Sigríðar í Brattholti á degi umhverfisins í fyrra, en það var í fyrsta sinn sem viðurkenningin var afhent. Sigrún Helgadóttir hefur helgað starfskrafta sína umhverfismálum, ekki síst við að miðla fræðslu til barna og ungmenna en einnig hefur hún lagt mikla áherslu á mikilvægi þess að auka skilning almennings á náttúru og umhverfi.
Frétt um afhendingu náttúruverndarviðurkenningar Sigríðar í Brattholti 2010.