Starfsánægjukönnun
Fjármálaráðuneytið og samstarfsaðilar þess í Þróunar- og símenntunarsjóði SFR og Fræðslusetrinu Starfsmennt hafa sammælst um að víkka út starfsánægjukönnun SFR sem unnin hefur verið undanfarin ár í samvinnu við VR.
Í þessu felst að könnunin um stofnun ársins verður nú lögð fyrir alla starfsmenn ríkisstofnana og að þær munu ekki þurfa að greiða sjálfar fyrir þátttöku annarra starfsmanna.
Markmið könnunarinnar er að veita upplýsingar um stöðu stofnana ríkisins hvað varðar stjórnun, skipulag, samskipti (menningu) og starfsaðstæður í upphafi árs 2011.
Niðurstöður könnunarinnar nýtast stjórnendum vel til þess að vinna markvisst að úrbótum þar sem þeirra er þörf þannig að vinnustaðurinn verði betri og starfsfólkið ánægðara.
Miðað er við að könnunin nái til allra ríkisstarfsmanna sem starfandi voru í október 2010 og uppfylla skilyrði um stærð stofnunar (fjórir og fleiri starfsmenn) og eru í 50% starfshlutfalli eða meira.
Spurningalistinn í könnuninni er hliðstæður spurningalista sem notaður hefur verið síðustu ár hjá VR og SFR og veitir könnunin því samanburð við fyrirtæki á einkamarkaði.
Farið verður með öll svör sem fullkomið trúnaðarmál og mun Capacent Gallup annast alla gagnavinnslu og framkvæmd könnunarinnar. Lágmarksþátttaka, til að komast á lista yfir stofnun ársins, er a.m.k. 35% svarhlutfall og a.m.k. fjórir svarendur hjá minni stofnunum og tíu svarendur hjá stærri stofnunum. Náist lágmarksþátttaka ekki verða niðurstöður ekki birtar.
Könnunin er opin til 18. mars.
Dregnir verða út tíu vinningar sem eru gjafabréf hjá Icelandair að andvirði 50 þúsund krónur. Mundu að geyma happdrættisnúmerið þitt eða miðann þinn. Vinningsnúmer verða birt í apríl á vef fjármálaráðuneytisins www.fjarmalaraduneyti.is og á vef SFR www.sfr.is.
Ef þú hefur einhverjar spurningar er þér velkomið að hafa samband við Ágústu H. Gústafsdóttur hjá fjármálaráðuneytinu í síma 545 9343 eða Capacent Gallup í síma 540 1000, þar sem Elín Valgerður Margrétardóttir, Tómas Bjarnason og Þórhallur Ólafsson veita nánari upplýsingar.