Utanríkisráðherra á fundi utanríkisráðherra ESB og umsóknarríkja í Ungverjalandi
Össur Skarphéðinsson utanríkisráðherra tók í dag þátt í fundi utanríkisráðherra Evrópusambandsins og umsóknarríkja sem haldinn var í Gödöllö í Ungverjalandi. Ráðherrarnir ræddu ástandið í Norður-Afríku og Arabaheiminum, stækkunarmál sambandsins og hamfarirnar í Japan.
Ráðherrarnir sögðu nauðsynlegt að ríki heims ynnu saman að lausn átakanna í Líbíu en utanríkismálastjóri ESB heldur í dag til fundar við Arababandalagið í Kaíró í Egyptalandi.
Í ræðu sinni á fundinum þakkaði utanríkisráðherra fyrir þær góðu móttökur sem Ísland hefði fengið hjá Evrópusambandinu en þetta væri í fyrsta skipti sem íslenskur utanríkisráðherra tæki þátt í fundi af þessu tagi. Ráðherra ítrekaði fordæmingu íslenskra stjórnvalda á framferði einræðisherrans Gaddafis gegn óbreyttum borgurum í Líbíu. Hann lagði áherslu á mikilvægi þess að Sameinuðu þjóðirnar kæmu sér saman um til hvaða aðgerða ætti að grípa til að lina hörmungar almennings í landinu. Á fundinum var rætt um möguleikann á að alþjóðasamfélagið gripi til loftferðabanns yfir Líbíu og var íslenski utanríkisráðherrann í hópi þeirra sem taldi það ekki einboðna aðgerð, og þyrfti að kanna til hlítar afleiðingar hennar áður en tekin væri ákvörðun um slíkt.
Utanríkisráðherra átti einnig fund með utanríkisráðherra Svartfjallalands, Milan Rocen, en landið bættist nýlega í hóp umsóknarríkja Evrópusambandsins. Rocen óskaði eftir samstarfi við Íslendinga og sagði Svartfellinga vilja læra af reynslu Íslendinga í samningaferlinu. Þá átti Össur einnig fund með Carl Bildt, utanríkisráðherra Svíþjóðar, um málefni norðurslóða og kynnti honum hugmyndir Íslendinga varðandi Norðurskautsráðið. Svíar taka við formennsku í Norðurskautsráðinu í maí.