Dýrin í Úkraínu fá betra fóður ... þökk sé frumkvöðlafyrirtækinu Intelscan
Kiev-Atlantic, einn stærsti framleiðandi Úkraínu á dýrafóðri, festi nýlega kaup á búnaði frá íslenska frumkvöðlafyrirtækinu Intelscan sem auðveldar nákvæma stýringu á vatnsinnihaldi í fóðri. Búnaður af þessu tagi hefur verið í notkun hjá Fóðurblöndunni um allnokkurt skeið með góðum árangri. Með því að nýta sér þessa tækni geta framleiðendur tryggt að vatnsinnihald vöru sé ævinlega innan ákveðinna viðmiðunarmarka en það er veigamikill þáttur í gæðastýringu.
„Okkar hugmyndafræði gengur út á að auðvelda framleiðendum að draga úr sveiflum í vatnsinnihaldi þannig að hægt verði að hafa stöðuga framleiðslu sem næst markgildi. Þannig næst umtalsverður sparnaður í orkunýtingu auk þess sem virði hráefnis eykst til muna," segir Ólafur H. Jónsson, framkvæmdastjóri Intelscan. „Fjárfesting af þessum toga er fljót að skila sér beint inn í rekstur viðskiptavina okkar og við höfum dæmi um að búnaðurinn hafi borgað sig upp á innan við tveimur vikum frá því hann var settur upp."
Vörur Intelscan eru nú seldar um allan heim og á meðal viðskiptavina þess eru leiðandi fyrirtæki í gæludýra,- fiska og húsdýrafóðri . Samstarfsaðilar Intelscan eru í Noregi, Hollandi, Englandi, Írlandi og í Danmörku.
Intelscan er eitt af ellefu fyrirtækjum sem staðsett eru á frumkvöðlasetrinu á Keldnaholti.