Hoppa yfir valmynd
16. mars 2011 Matvælaráðuneytið

Um fyrirkomulag makrílveiða árið 2011

 

Nr. 9/2011

Um fyrirkomulag makrílveiða árið 2011

 

Sjávarútvegs- og landbúnaðarráðuneytið hefur gefið út reglugerð um stjórn makrílveiða íslenskra skipa árið 2011. Við úthlutun er horft til þess að auka þann hluta makrílaflans sem fer til vinnslu og manneldis. Tekið er tillit til alhliða hagsmuna greinarinnar og þjóðarbúsins með því að stuðlað verði að sem mestri og fjölbreyttastri verðmætasköpun og atvinnu.

Allar veiðar á makríl í fiskveiðilandhelgi Íslands og á samningssvæði Norðaustur-Atlantshafsfiskveiðinefndarinnar (NEAFC) verða háðar leyfum. Reglugerðin kveður á um, að miðað verði við að ráðherra geti stöðvað makrílveiðar þegar 154.825 lesta afla hefur verið náð.

Tekið skal fram að ekki hefur náðst samkomulag við önnur strandríki um fyrirkomulag eða leyfilegt heildarmagn makrílveiða, og verða því leyfi til veiða á makríl einungis gefin út fyrir yfirstandandi ár. Líkt og fyrr er áhersla lögð á að ekki megi reikna með að veiðarnar í ár skapi grunn að veiðirétti í framtíðinni eða að framtíðarfyrirkomulagi veiða að öðru leyti. Á það er jafnframt bent að ekki liggur fyrir samfelld veiðireynsla í skilningi laga og að mikilvægt er fyrir þjóðarbúið að ekki sé lokað fyrir möguleika á að aflað sé enn fjölbreyttari reynslu í vinnslu og veiðum en fyrir liggur nú. Í þessu skyni er liðlega fimmtungi aflaheimilda ráðstafað til vinnsluskipa og tekið mið af afkastagetu þeirra við frystingu.

Þau nýmæli eru ennfremur í reglugerðinni að nú er öllum sem fá leyfi skylt að ráðstafa 70% makrílafla einstakra skipa til vinnslu. Sem fyrr er framsal aflaheimilda í makríl óheimilt en útgerðum verður nú heimilt að flytja allt að 10% aflaheimilda milli ára. Sem fyrr hefur ráðherra heimild til endurúthlutunar ónýttra aflaheimilda.

Viðmiðunarafla verður ráðstafað til skipa með þrennskonar hætti:

1. 2.000 lestum skal ráðstafað til skipa sem stunda makrílveiðar með línu eða handfærum.

2. 6.000 lestum skal ráðstafað til skipa sem ekki frysta afla um borð, enda hafi útgerðir þeirra sýnt fram á að aflinn verði unninn í landi. Varðandi leyft heildarmagn hvers skips gilda sérreglur um skip sem eru 200 BT eða minni en hvert þeirra fær í sinn hlut 20% af veiðiheimild skips sem er stærra en 200 BT.

3. 34.825 lestum er ráðstafað til vinnsluskipa í hlutfalli við heildarafkastavísitölu skipa miðað við frystigetu.

4. 112.000 lestum skal ráðstafað til uppsjávarskipa sem veitt hafa makríl í flottroll og nót á árunum 2007-2009 samkvæmt nánari ákvæðum reglugerðar.

Fiskistofa mun sjá um framkvæmd veiðileyfa.

Reglugerð um stjórn makrílveiða íslenskra skipa árið 2011.

 

 

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta