Hoppa yfir valmynd
17. mars 2011 Matvælaráðuneytið

Yfirlýsing frá sjávarútvegs- og landbúnaðarráðuneytinu

Í forsíðufrétt Fréttablaðsins þann 11. mars 2011, er birt viðtal við stjórnmálafræðing þar sem viðkomandi vitnar í nýtt ákvæði í 6. grein reglugerðar Evrópusambandsins nr. 57/2011 sem kveður á um rétt aðildarríkja til að ákveða sjálft leyfilegt aflahámark ákveðinna stofna. Viðmælandi blaðsins færir í viðtalinu rök fyrir að umrædd grein tengist beint og gagnist sem rökstuðningur fyrir hagsmunum Íslands vegna botnfiskafla á Íslandsmiðum.

Nú er rétt að taka fram að umboð samninganefndar Íslands við ESB er m.a. skilyrt við þær grunnforsendur að Ísland haldi fullveldisrétti í 200 mílna lögsögu. Tilslökun frá þeim rétti getur ekki átt sér stað nema málið komi aftur til umfjöllunar Alþingis.

Það gætir aftur á móti mikils misskilnings í umræddu Fréttablaðsviðtali að umrædd 6. grein rg. 57/2011 geti orðið grundvöllur viðræðna og styðji beint við samningskröfu Íslands. Framkvæmdastjórn ESB hefur bent á að umrædd grein sé takmörkuð við þrjá þætti sem eru:

  1. Að nýting stofns takmarkist við eitt ríki – en það atriði á algjörlega við þegar rætt er um t.d. íslenska þorskstofninn og annan botnfiskafla við Ísland.
  2. Að hagsmunir séu óverulegir – sem getur ekki átt við um botnfiskafla við Ísland enda eru verulegir hagsmunir hvort sem litið er til þjóðhagsmuna Íslands eða heildarhagsmuna sjávarútvegs í Evrópu. Í þeim tilvikum þar sem ESB hefur heimilað að umrætt reglugerðarákvæði gildi er í öllum tilvikum um að ræða heildarveiði í viðkomandi stofni sem er innan við 5000 tonn ári en alls eru tilvikin sex og heildarveiðin í þeim stofnum –öllum 10.317 tonn.
  3. Að ekki hafi legið fyrir vísindaleg ráðgjöf. – Það á alls ekki við um veiði í íslenskri lögsögu.

Þá er rétt að það komi fram að umrætt ákvæði er innleitt í tilraunaskyni og er ekki varanlegt heldur gildir aðeins til skamms tíma. Ennfremur kemur skýrt fram að réttur einstakra ríkja skv. 6. gr. 57/2011 takmarkast við það að farið sé eftir lögum og reglum ESB að öllu leyti og getur því ekki talist einhliða ákvörðun heldur fer viðkomandi ríki með ákvörðunarvald á grundvelli lagaramma sem ESB setur. Í sjávarútvegsmálum er verulegur munur á íslensku regluverki eins og það er í dag og þeim lögum og reglum sem gilda innan ESB.

Ráðuneyti sjávarútvegs- og landbúnaðar fagnar þeim áhuga fjölmiðla og leikmanna sem birtist í umfjöllun Fréttablaðsins um sjávarútvegsmál og hagsmuni Íslands í aðildarviðræðum við ESB. En um leið er rétt að vara við því að hrapað sé að ályktunum í þessu mikilvæga hagsmunamáli þjóðarinnar og ljóst er forsíðufyrirsögn Fréttablaðsins þar sem segir að ESB ríki ákveði sjálf kvóta í staðbundnum tegundum, er villandi þar sem þetta er alls ekki meginregla heldur undantekningartilvik smárra hagsmuna sem ESB setur allan lagaramma um.

 

14. mars 2011

Bjarni Harðarson upplýsingafulltrúi sjávarútvegs- og landbúnaðarráðuneyti

 

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta