Áætlun um losun gjaldeyrishafta
Ríkisstjórnin samþykkti á fundi sínum í dag áætlun um losun gjaldeyrishafta í áföngum í samræmi við tillögu Seðlabanka Íslands sem unnin hefur verið í samráði við efnahags- og viðskiptaráðuneyti, fjármálaráðuneyti og Fjármálaeftirlit. Haft var samráð við Alþjóðagjaldeyrissjóðinn auk þess sem erlendur ráðgjafi með reynslu af gjaldeyriseftirliti og losun hafta veitti ráðgjöf.
Áætlunin er í megindráttum tvískipt. Í fyrri áfanga verður tekið á vanda sem skapast hefur vegna svokallaðra aflandskróna, sem torveldað hafa losun gjaldeyrishafta. Aflandskrónur eru að miklu leyti í eigu erlendra aðila og bundnar í innstæðum og ríkisverðbréfum. Áætlað er að þær nemi rúmum 400-500 mö.kr. eða fjórðungi áætlaðrar landsframleiðslu þessa árs. Tilvist þeirra getur skapað óróleika á skuldabréfa- og gjaldeyrismarkaði og truflað eðlilega verðmyndun á fjármálamörkuðum.
Þegar ásættanlegur árangur hefur náðst í fyrri áfanga og öðrum efnahagslegum skilyrðum hefur verið fullnægt verður losað um höft á aðrar krónueignir í síðari áfanga áætlunarinnar. Áætlunin er ekki tímasett heldur ræðst framvindan af þróun efnahagslegra skilyrða og árangri af einstökum aðgerðum. Allt ferlið miðar að því að takmarka neikvæð áhrif á stöðugleika krónunnar, lausafjárstöðu bankanna og skuldabréfamarkað. Tekin verða mörg varfærin skref eftir því sem aðstæður leyfa.
Aflandskrónur verða í fyrstu losaðar með röð gjaldeyrisútboða. Seðlabanki Íslands mun fyrst bjóða upp gjaldeyri til eigenda aflandskróna. Þessar aflandskrónur verða að því loknu boðnar í útboði til eigenda erlends gjaldeyris, sem hafa áhuga á að fjárfesta til lengri tíma í ríkisskuldabréfum eða íslensku atvinnulífi. Auk þess mun eigendum löglega fenginna aflandskróna verða boðið að nýta þær til fjárfestingar í íslensku atvinnulífi á sama hátt. Þeim aðilum sem fjárfesta í íslensku atvinnulífi með erlendum gjaldeyri verður boðið að nýta aflandskrónur fyrir allt að helmingi fjárfestingarinnar. Þessar fjárfestingar verða bundnar til nokkurs tíma. Að lokum verður eigendum aflandskróna sem hvorki hafa tekið þátt í útboðum né bundið þær í íslensku atvinnulífi boðið að losa um stöður sínar með bindingu í langtímaskuldabréfi ríkissjóðs í erlendum gjaldmiðli eða með greiðslu útgöngugjalds.
Síðari áfangi áætlunarinnar snýr að losun hafta á aðrar krónueignir. Honum verður hrint í framkvæmd þegar ásættanlegur árangur hefur náðst við losun aflandskróna, aflandsgengið hefur færst nægilega nálægt gengi á innanlandsmarkaði og aðrar efnahagslegar forsendur eru fyrir hendi. Þá þarf einnig að hafa verið tekin ákvörðun um peningastefnu til framtíðar. Ákvörðun um upphaf og framkvæmd þessa áfanga verður tekin af ríkisstjórn í samráði við Seðlabanka Íslands með sama hætti og verið hefur.
Stjórnvöldum er það kappsmál að eðlilegar aðstæður skapist á íslenskum fjármálamarkaði eins fljótt og frekast er unnt. Til að ná markmiðum um afnám hafta án þess að fjármála- eða gengisstöðugleika verði teflt í tvísýnu mun efnahags- og viðskiptaráðherra leggja til við Alþingi að lagaheimild um gjaldeyrishöft verið framlengd til ársloka 2015. Ef aðstæður leyfa verða höftin afnumin fyrr.Áætlunina má lesa í heild sinni á vef Seðlabankans.