Línuritið yfir fjölda erlendra ferðamanna á að minna á Herðubreið frekar en Búlandstind
Ferðaþjónustan er ein allra mikilvægasta atvinnugrein þjóðarinnar og fjölgun erlendra ferðamanna á undanförnum árum hefur verið ævintýri líkust. Langflestir þeirra kjósa að koma yfir sumarmánuðina þrjá sem þýðir að hina níu mánuði ársins höfum við tækifæri til að taka á móti miklu fleirum.
Línuritið yfir komu erlendra ferðamanna minnir þannig á Búlandstind með sitt keilulaga form. Nú er hins vegar að fara af stað mikil vinna sem hefur það að markmiði að breyta lögun ferðamannalínuritsins þannig að það taki á sig lögun Herðubreiðar með sínar breiðu axlir og kórónu á sér miðri.
Gangi þetta eftir er ljóst að milljón ferðamannamarkið er ekki svo langt undan.
Til upplýsingar um vöxt ferðaþjónustunnar þá gerðist það í fyrsta sinn árið 1986 að fjöldi erlendra ferðamanna fór yfir 100.000. Tíu árum síðar fór fjöldinn í fyrsta sinn yfir 200.000 og 300.000 ferðamannamúrin var brotinn árið 2003. Á síðasta ári voru ferðamenn rétt tæplega 500.000.