Ósk um frávik frá reglum í Aðalnámskrá framhaldsskóla almennum hluta 2004
Vísað er til bréfs, dags. 25. janúar 2011, þar sem óskað er eftir undanþágu fyrir Fjölbrautaskóla Vesturlands á Akranesi
Vísað er til bréfs, dags. 25. janúar 2011, þar sem óskað er eftir undanþágu fyrir Fjölbrautaskóla Vesturlands á Akranesi (FVA) til að brautskrá nemendur af starfsnámsbrautum með stúdentspróf, þrátt fyrir að þeir hafi ekki lokið tilskilinni starfsþjálfun, eins og kveðið er á um í aðalnámskrá framhaldsskóla. Hér er um að ræða nám til stúdentsprófs fyrir nemendur sem lokið hafa skilgreindu starfsnámi, sbr. kafla 4.4.2 í almennum hluta aðalnámskrá framhaldsskóla, frá árinu 2004. Er í bréfinu rakið að hópur nemenda í FVA, sem lokið hefur skilgreindu iðnnámi, hafi ekki náð að ljúka tilskilinni starfsþjálfun vegna þrenginga á vinnumarkaði. Nemendurnir vilji nýta tímann til að bæta við sig námi til stúdentsprófs skv. fyrrnefndum ákvæðum aðalnámskrár um viðbótarnám til stúdentsprófs.
Við afgreiðslu á erindinu verður að líta til þess að þrjár forsendur þurfa að vera uppfylltar til að ljúka stúdentsprófi samkvæmt framangreindum ákvæðum námskrárinnar:
-
Námi í skóla verður að verða lokið með fullnægjandi árangri.
-
Tilskilinni starfsþjálfun á vinnustað verður að vera lokið.
-
Tilteknu lágmarki náms í bóklegum greinum, sem skilgreint er í námskránni fyrir ólíka flokka starfsnáms, verður að vera lokið.
Framantaldar forsendur eru lagðar til grundvallar því að viðbótarnámið uppfylli skilyrði stúdentsprófs þótt það víki frá hefðbundnu skipulagi stúdentsprófs á bóknámsbrautum, bæði varðandi samsetningu námsgreina og einingafjölda. Rökstuðningur fyrir slíku fráviki er m.a. sá að jafna má reynslu sem fæst í starfsþjálfun á tilteknu sérsviði við hluta af námstíma í skóla. Þar með geti starfsnámsnemendur lokið stúdentsprófi án þessa að bæta við sig öllum þeim áföngum og einingum sem krafist er á bóknámsbrautum.
Að mati ráðuneytisins er eðlilegt að líta til þeirra aðstæðna, sem lýst er í bréfi FVA, og ætla má að eigi við um starfsnámsnemendur í öðrum skólum. Að teknu tilliti til þess og sérstöðu viðbótarnámsins, sem rakin er í bréfi þessu, hefur ráðuneytið ákveðið að heimila eftirfarandi frávik frá ákvæðum aðalnámskrár:
Framhaldsskólum er heimilt að brautskrá starfsnámsnemendur sem lokið hafa þriggja til fjögurra ára starfnámi með stúdentspróf eftir viðbótarnám, þótt þeir hafi ekki lokið tilskilinni starfsþjálfun. Í stað kröfu um tilskilda starfsþjálfun komi hins vegar krafa um að nemendur hafi lokið 140 einingum alls að lágmarki. Nemendur skulu áfram hafa lokið námi í skóla og þeim lágmarksfjölda eininga í tilteknum greinum sem krafist er í kafla 4.2.2, grein b.1. í almennum hluta aðalnámskrár framhaldsskóla 2004.