Athugasemd sjávarútvegs- og landbúnaðarráðuneytis við skýrslu Ríkisendurskoðunar
Nr. 12/2011
Athugasemd sjávarútvegs- og landbúnaðarráðuneytis við skýrslu Ríkisendurskoðunar
Vegna umræðu um nýbirta skýrslu Ríkisendurskoðunar um útvistun opinberra verkefna til Bændasamtaka íslands vill sjávarútvegs- og landbúnaðarráðuneytið koma eftirfarandi leiðréttingu á framfæri.
Á bls. 4 í skýrslunni, þar sem fjallað er um mögulega hagsmunaárekstra milli ráðuneytis og Bændasamtaka Íslands segir:
Að mati Ríkisendurskoðunar er hætta á að samtökin hefti aðgang stjórnvalda að þessum upplýsingum ef þau síðarnefndu fara gegn vílja eða hagsmunum samtakanna. Mikilvægt er að fyrirbyggja að slíkar aðstæður skapist. Í þessu sambandi má benda á að í október 2010 höfnuðu Bændasamtökin beiðni sjávarútvegs- og landbúnaðarráðuneytisins um að starfsmenn samtakanna veittu sérfræðiaðstoð um landbúnaðarmál vegna aðildarumsóknar Íslands að Evrópusambandinu.
Hér er rangt með farið. Bændasamtök Íslands höfnuðu ekki beiðni ráðuneytisins um upplýsingar eða sérfræðiaðstoð; þvert á móti undirbjuggu sérfræðingar samtakanna öll þau svör við spurningum framkvæmdastjórnar ESB sem óskað var eftir, bæði síðastliðið haust og eins haustið 2009 þegar annar spurningalisti var á ferðinni. Hins vegar höfnuðu Bændasamtökin því að sérfræðingar þeirra tækju þátt í svokölluðum rýnifundum í Brussel eins og óskað hafði verið eftir.
Sjávarútvegs- og landbúnaðarráðuneytið hefur skýrslu Ríkisendurskoðunar nú til athugunar og mun bregðast við athugasemdum og ábendingum í henni eins og ástæða er til.