Íslendingar fulltrúar ÖSE við eyðingu klasasprengja í Ungverjalandi
Ingibjörg Davíðsdóttir, sendiráðunautur, flutti sl. fimmtudag ávarp við upphaf eyðingar á klasasprengjubirgðum Ungverja í Erdökertes en Ísland fer nú með formennsku á öryggismálasamvinnuvettvangi Öryggis- og samvinnustofnunar Evrópu, ÖSE.
34 af 56 aðildarríkjum ÖSE, þar á meðal Ísland og Ungverjaland, hafa undirritað sáttmálann um bann við klasasprengjum. Stofnunin leggur áherslu á að stórum sem smáum vopnum sem eru úrelt, sé eytt og er eyðingin á klasasprengjubirgðum Ungverja hluti þess.
Við þetta tækifæri sýndi sprengjuleitarsveit Ungverjalands hvernig klasasprengjurnar eru teknar í sundur fyrir förgun, auk þess sem sýnd voru sprengjuleitartæki og annar búnaður. Umrædd sveit er kölluð út þegar finnast sprengjur þar í landi. Séu þær smáar er þeim eytt á staðnum en þær öflugri eru fluttar til Erdökertes og eytt þar.