Hoppa yfir valmynd
30. mars 2011 Umhverfis-٫ orku- og loftslagsráðuneytið

Ávarp umhverfisráðherra á ársfundi Umhverfisstofnunar 2011

Svandís Svavarsdóttir umhverfisráðherra flutti eftirfarandi ávarp á ársfundi Umhverfisstofnunar sem haldinn var 25. mars 2011. 

Almenningur og atvinnulíf

Fundarstjóri, starfsfólk Umhverfisstofnunar, ágætu ársfundargestir.

Allar athafnir okkar hafa áhrif á umhverfið.

Allar daglegar venjur eins og að fara á fætur, fá sér morgunmat, fara í vinnuna, kaupa í matinn, sinna heimilisstörfum og fleira, allt hefur þetta áhrif á umhverfið. En við höfum val um það hvað við gerum. Við getum valið um samgöngumáta, hvaða vörur og þjónustu við kaupum og þannig reynt að lágmarka áhrif okkar á umhverfi og heilsu. Flestar daglegar athafnir okkar snerta á einhvern hátt alla helstu umhverfisþætti þjónustu eða framleiðslu vöru svo sem orku– og hráefnanotkun, losun mengandi efna, umbúðanotkun, flutning og meðhöndlun úrgangs.

Sem neytendur höfum við mikið vald. Við getum gert það sem okkur sýnist án þess að huga að umhverfinu eða ákveðið að leggja okkar að mörkum til að lágmarka áhrif á umhverfið, fara vel með, nota minna, spara orku, huga að vistvænum innkaupum og minnka úrgang. Okkar er valið.

Daglegt líf okkar er því á ýmsan hátt svipað rekstri fyrirtækis þegar litið er til þess að draga úr áhrifum á umhverfið. Það snýst m.a. um innkaup og neyslu. Við höfum val, við höfum áhrif. Þetta gildir bæði um almenning og atvinnulífið. Hver og einn hefur áhrif og ber ábyrgð

Ríkið er stór innkaupaaðili, sá stærsti á íslenskum markaði og getur því haft mikil áhrif á umhverfið. Til að draga úr neikvæðum umhverfisáhrifum er árangursríkt að stýra stofnunum og fyrirtækjum í átt að vistvænni innkaupum.

Innleiðing á vistvænni innkaupastefnu ríkisins hófst árið 2010 en hún fer þannig fram að innkaupastjórar stofnana fá ráðgjöf um það hvernig sé hægt að stunda vistvæn innkaup. Stofnanir eru hvattar til að setja sér mælanleg markmið og gera vistvæn innkaup að hluta af venjulegum hversdagsinnkaupum. Það er samt ekki nóg að einn einstaklingur á hverjum vinnustað fái fræðslu eða stuðning. Við breytum ekki viðteknum venjum nema allir starfsmenn, þ.e. hver og einn, átti sig á af hverju breytingarnar eru mikilvægar og sjái tilganginn með þeim. Þess vegna er öllum starfsmönnum stofnana boðið upp á stutt örnámskeið um mikilvægi umhverfismála í tengslum við innkaup og neyslu. Þetta hefur gefist vel og ljóst er að stofnanir eru afar áhugasamar um umhverfismál almennt og þakklátar fyrir veittan stuðning.

Á síðasta ársfundi Umhverfisstofnunar var sérstaklega vakin athygli á jákvæðri þróun í notkun Svansmerkisins hér á landi fyrir tilstilli Umhverfisstofnunar. Svanurinn er táknrænn fyrir það oddaflug sem við þurfum að þreyta til að ná fram markmiðum í þágu umhverfis og náttúru.

Svansmerkið staðfestir fyrir okkur sem neytendur að varan eða þjónustan eru betri fyrir umhverfið heldur en önnur sambærileg vara eða þjónusta.

Þegar rætt er um vistvæn innkaup ríkisins er Svanurinn jafnan eitt af því fyrsta sem ber á góma. Að velja umhverfisvottaða vöru er eitt það árangursríkasta sem allir innkaupastjórar og neytendur geta gert til að lágmarka umhverfisáhrif. Með innleiðingu vistvænna sjónarmiða í opinberum innkaupum þar sem sett eru fram umhverfiskröfur til vöru eða þjónustu, þá tæplega þrefaldaðist fjöldi Svansleyfa hér á landi á einu ári, eða frá fimm í fjórtán. Aukinn sýnileiki Svansins skilar sér einnig til almennings en samkvæmt Gallup könnun frá desember 2010 hefur þekking manna á Svaninum á Íslandi aldrei verið meiri. Nú er það svo að 73% landsmanna þekkja Svaninn. Sterkari staða Svansins segir okkur að neytendur munu í auknum mæli gera kröfu um yfirgripsmikið vöruúrval af Svansmerktum vörum og fyrir liggur að framleiðendur, birgjar og seljendur eru tilbúnir að mæta þeim.

Að undanförnu hefur töluvert verið rætt um miðlun upplýsinga vegna mengandi starfsemi og kallað eftir því að almenningur hafi aðgang að og fái upplýsingar um atriði sem geta varðað umhverfi hans og heilsu. Hlutverk Umhverfisstofnunar er að stuðla að velferð almennings m.a. með því að beita sér fyrir heilnæmu umhverfi og öruggum neysluvörum. Öflun upplýsinga og miðlun þeirra til borgaranna er grundvöllur þess að stofnunin geti sinnt þessu hlutverki og er því mikilvægt að stofnunin endurskoði og meti reglulega gæði og skilvirkni í miðlun upplýsinga. Almenningur reiðir sig á þessar upplýsingar og traust hans til stofnunarinnar og þar af leiðandi trúverðugleiki hennar ræðst að miklu leyti af því hvernig til tekst. Umhverfisstofnun hóf fyrir ári síðan undirbúning að bættri miðlun upplýsinga um umhverfismál til almennings og er afraksturinn nýtt vefsvæði stofnunarinnar sem opnar í dag. Á nýja vefsvæðinu er hægt að finna með einföldum hætti á landakorti upplýsingar um alla þá mengandi starfsemi sem stofnunin hefur eftirlit með, þar á meðal helstu umhverfiskröfur, eftirlitsskýrslur og þvingunarúrræði. Þannig er stefnt að því að almenningur fái upplýsingar um starfsemina og stöðu mála hvað varðar eftirlit og losun mengandi efna. Opnun vefsíðunnar er því afar ánægjulegt skref í þá átt að bæta upplýsingagjöf til almennings.

Það er einnig ánægjulegt frá því að segja að á þessu nýja vefsvæðinu er að finna upplýsingar um friðlýst svæði og þjóðgarða á Íslandi. Þar er hægt að sjá myndir af svæðunum og mun stofnunin bæta enn frekar við upplýsingum um svæðin. Nýlega var tekinn saman listi yfir þau svæði sem eru í hættu vegna ágangs, en meðal þeirra eru margar af okkar merkustu náttúruperlum og verður hægt að fylgjast með stöðu mála hvað það varðar á nýja vefsvæðinu.

Eftirlit með mengandi starfsemi, umhverfisvöktun og upplýsingagjöf þarf að nálgast með nýrri hugsun og mikilvægt er að styrkja vöktun umhverfisins. Vaxtarbroddar í íslensku atvinnulífi tengjast margir ímynd hreinleika og umhverfisverndar. Við seljum hreint sjávarfang og lambakjöt án aukefna og við seljum ferðamönnum tært loft og vatn. Þessi ímynd verður að vera byggð á staðreyndum. Þess vegna verðum við að búa að reglulegri vöktun og góðum og aðgengilegum upplýsingum um alla helstu þætti sem lagðir eru til grundvallar í alþjóðlegum samanburði. Góð vöktun á mengun í lofti, láði og legi, hvort sem hún er augljóst vandamál eða ekki, er því skynsamleg fjárfesting. Vöktun er einnig mikilvæg fyrir atvinnulífið sem þarf að geta sýnt fram á og sannað hvernig starfseminni er háttað og mikilvægt er að niðurstaða vöktunar og mælinga sé skýr og trúverðug. Því er þörf á að skoða vöktun og upplýsingagjöf varðandi mengun á heildstæðan hátt og skerpa á stefnu og forgangsröðun hvað það varðar. Þetta er og verður eins og áður sagði eitt af megin hlutverkum Umhverfisstofnunar.

Í umhverfisráðuneytinu er unnið að ýmsum verkefnum sem tengjast mengunar- og hollustumálum og aðkomu almennings að þeim. Má þar nefna undirbúning að fullgildingu Árósasamningsins hér á landi en umhverfisráðherra mun leggja fram á Alþingi á næstunni frumvörp til að tryggja að íslensk lög samræmist samningnum. Frumvörpin fela meðal annars í sér að almenningur mun geta borið ákvarðanir sem varða mikilvæga umhverfishagsmuni undir sjálfstæða og óháða úrskurðarnefnd og leitað virkra úrræða til að tryggja verndarhagsmuni umhverfisins. Gert er ráð fyrir að Úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála leysi af hólmi úrskurðarnefnd skipulags- og byggingarmála og úrskurðarnefnd sem starfar samkvæmt lögum um hollustuhætti og mengunarvarnir.

Meðal mikilvægustu nýmæla í frumvörpunum er að aðild að kærum vegna tiltekinna ákvarðana stjórnvalda verða opnuð öllum.

Vinna við innleiðingu vatnatilskipunar ESB hefur staðið yfir undanfarin ár á vegum umhverfisráðuneytisins og Umhverfisstofnunar í samstarfi við fjölmargar stofnanir og aðra aðila. Það er ánægjulegt að segja frá því að þetta starf hefur gengið mjög vel og verið til fyrirmyndar og mikill metnaður hefur verið hjá öllum að leysa þetta verkefni vel af hendi. Á Alþingi liggur fyrir frumvarp sem er ætlað að innleiða vatnatilskipunina og er ánægjulegt að segja frá því að frumvarpið er til lokameðferðar hjá umhverfisnefnda Alþingis. Markmið væntanlegra laga er m.a. að vernda vatn og vistkerfi þeirra. Það er ljóst að hér er um að ræða viðamikið verkefni sem Umhverfisstofnun munu hafa umsjón með næstu árin.

Þá má nefna nefnd um loftmengun og lýðheilsu sem umhverfisráðherra og velferðarráðherra settu á fót og mun skila niðurstöðum á þessu ári. Eru bundnar miklar vonir við að það starf gefi okkur heildstæða mynd af loftmengun, jafnt utandyra sem innanhúss, sem verði grundvöllur forgangsröðunar og aðgerða til að bæta heilsu fólks, ekki síst barna.

Góðir gestir

Fyrir hönd umhverfisráðherra vil ég nota þetta tækifæri og þakka starfsfólki Umhverfisstofnunar fyrir samstarfið á liðnu ári. Mikið hefur mætt á stofnuninni vegna öskugossins í Eyjafjallajökli, sem við höfum ekki séð fyrir endann á. Það verkefni stendur upp úr í verkefnum Umhverfisstofnunar á liðnu ári og hefur starfsfólk stofnunarinnar leyst með sóma þau verkefni sem upp komu í tengslum við gosið. Ég hvet ykkur til að halda ótrauð áfram ykkar mikilvæga starfi og óska ykkur velfarnaðar í ykkar mikilvægu verkefnum í framtíðinni.

Góðar stundir.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta