Hoppa yfir valmynd
1. apríl 2011 Umhverfis-٫ orku- og loftslagsráðuneytið

Ávarp umhverfisráðherra á ársfundi NÍ 2011

Svandís Svavarsdóttir umhverfisráðherra flutti eftirfarandi ávarp við upphaf ársfundar Náttúrufræðistofnunar Íslands sem haldinn var 1. apríl 2011.

Ágætu starfsmenn Náttúrufræðistofnunar Íslands og góðir gestir.

Það er ánægjulegt að fá að ávarpa ykkur hér í Urriðaholtinu á fyrsta ársfundi Náttúrufræðstofnunar sem haldinn er í þessu nýja, glæsilega og umhverfisvæna húsnæði. Eins og ég hef áður sagt við önnur tilefni hefur Náttúrufræðistofnun Íslands áunnið sér mikilvægan sess sem ein af lykilstofnun íslensks samfélags og það eigum við ekki síst að þakka þeim fræðimönnum og konum sem stofnunin hefur haft innan sinna vébanda. Náttúruvísindafólki og náttúruunnendum sem af hugsjón hafa tileinkað ævistarf sitt íslenskri náttúru. Forstjóri og aðrir starfsmenn Náttúrufræðistofnunar hafa kennt mér mikið og ég er þakklát og ekki síður stolt af því að hafa stofnunina innan ráðuneytis míns. Vil ég sérstaklega þakka ykkur öllum sem hafa komið að ýmiskonar vinnu í umhverfisráðuneytinu s.s. við endurskoðun náttúruverndarlaga, endurskoðun lagaumhverfis um villta fugla og villt spendýr, lúpínuverkefninu góðkunna og fleiri verkefnum á sviði náttúruvísinda og náttúruverndar.

Ég hef skynjað vel þær miklu væntingar sem náttúruunnendur og náttúruvísindafólk hafa haft til þessarar ríkisstjórnar sem hefur að markmiði að hefja náttúruvernd til vegs og styrkja stöðu hennar innan stjórnarráðsins. Ég hef líka stundum skynjað að mörg ykkar hafa eins ég og viljað sjá verkefni í þá átt ganga hraðar fram og að um þau væri meiri sátt.

Ég nefni þar sérstaklega frumvarp til laga um breytingar á náttúruverndarlögum sem birt var til kynningar í desember síðastliðnum. Það frumvarp var unnið af nefnd sem hefur frá því í nóvember 2009 unnið að endurskoðun náttúruverndarlaga. Það var mat þeirrar nefndar að þær þrjár greinar sem frumvarpsdrögin taka til þ.e. 17. gr. um akstur utan vega, 37. gr. um sérstaka vernd og loks 41. gr. um líffræðilega fjölbreytni, þyrfti að breyta sem fyrst til að styrkja náttúruvernd og koma í veg fyrir óafturkræf spjöll á náttúrunni.

Ég hef satt að segja verið verulega hugsi yfir viðbrögðunum sem frumvarpsdrögin kölluðu á, þegar þau voru sett á heimasíðu ráðuneytisins til umsagnar og athugasemda hjá allri þjóðinni.

Mér finnst til að mynda mikið umhugsunarefni óbilgjörn ádeila og jafnvel hatrammar árásir á stefnu stjórnvalda um líffræðilega fjölbreytni.

Það fer ekki á milli mála að umrædd viðbrögð hafa tafið framgöngu þessa frumvarps en ég tel rétt að farið verði vel yfir þær málefnalegu athugasemdir sem bárust og reynt verði að koma á móts við þær eftir bestu getu án þess þó að slegið verði af þeim markmiðum sem að er stefnt með frumvarpinu. Ég bind vonir við að frumvarpið fari fyrir ríkisstjórn nú í þessum mánuði og að hægt verði að leggja það fram á yfirstandandi þingi svo að það verði að lögum sem fyrst. En það ræðst síðast en ekki síst af vinnu umhverfisnefndar sem hefur ótalmörg verkefni á sinni könnu.

Það er skiljanlegt þegar að fólk sem lengi hefur barist fyrir aukinni náttúruvernd finnur pólitískan vilja að það vilji snúa við blaðinu á einni nóttu. En svo einfalt er það ekki því náttúruvernd er langtímaverkefni. Við megum samt aldrei látan deigan síga og eigum að fagna hverju góðu skrefi á langri leið.

Á síðasta ársfundi Náttúrufræðistofnunar nefndi ég mikilvægi þess að taka stöðu með náttúrunni og gefa henni það rými sem hún á skilið í umræðunni.

Með því að taka afstöðu með náttúrunni og setja málefni á dagskrá eins og líffræðilega fjölbreytni, taka til skoðunar stöðu hvala og sela í umfjöllun um villidýralögin o.s.frv. þá erum við að þroska umræðuna um náttúruvernd úti í samfélaginu.

Við erum að taka meira rými og þar með að hefja náttúruvernd til vegs. Við höfum náð ýmsum áföngum á sviði náttúruverndar og má sem dæmi nefna stækkun Vatnajökulsþjóðgarðs (Langasjó og hluta Eldgjár) og fyrstu verndaráætlun þjóðgarðsins sem nýlega var staðfest.

Í febrúar sl. var fyrsta friðlýsing búsvæðis hryggleysingja á landinu staðfest þegar skrifað var undir verndun tjarnarklukku og búsvæða hennar á Hálsum í Djúpavogi. Sú friðlýsing er loks að skila sér eftir langt og farsælt starf Erlings Ólafssonar, skordýrafræðings hér við Náttúrufræðistofnun Íslands sem ég vil sérstaklega þakka fyrir aðkomu hans að því verkefni. Erlingur er ekki jafn fyrirferðarmikill og sumir samferðamenn okkar og tjarnarklukkan kannski ekki stór í samanburði við heilan Langasjó en friðlýsing hennar er engu að síður stórt og mikilvægt skref í náttúruvernd á Íslandi sem markar tímamót.

Við finnum líka fyrir auknum áhuga almennings á náttúruvernd. Ber gífurleg aðsókn á opið hús Náttúrufræðistofnunar í mars sl. vitni um að almenningur hefur mikinn áhuga á íslenskri náttúru. Þá tel ég að það mikla traust sem Náttúrufræðistofnun nýtur meðal almennings og birtist í Capacentkönnun í febrúar sl. endurspegli trúverðugleika stofnunarinnar og þann sess sem stofnunin hefur í huga landsmanna sem ein af lykil stofnunum samfélagsins.

Góðir gestir

Endurskoðun náttúruverndarlaga er stórt og umfangsmikið verkefni. Eins og ég nefndi hér áðan þá hefur verið starfandi nefnd um endurskoðunina frá því í nóvember 2009. Vinnan við endurskoðunina er að ég tel nokkuð frábrugðin því sem við eigum að venjast við endurskoðun laga. Í stað þess að skila af sér fullunnu frumvarpi mun nefndin skila af sér fyrir sumarið svokallaðri hvítbók sem tekur til umfjöllunar breytt svið náttúrverndar allt frá grundvelli löggjafar um náttúruvernd til einstaka stjórnsýsluútfærslna á löggjöfinni. Þessi vinna er lík því sem við þekkjum á Norðurlöndum og skref í þá átt að bæta grundvöll löggjafar á Íslandi eins og Rannsóknarnefnd Alþingis lagði svo mikla áherslu á í skýrslu sinni.

Ég hef fylgst vel með vinnu nefndarinnar og horfi með tilhlökkun til þess verks sem hún mun skila af sér.

Ég mun leggja áherslu á að hvítbókin verði gefin út, að hún fari til ítarlegrar kynningar um allt land og vonast til þess að hún verði til þess að skapa málefnalega og uppbyggilega umræðu um vernd íslenskrar náttúru í lengd og bráð. Að auki mun hún verða helsta umræðuefni á komandi umhverfisþingi sem fram fer á Selfossi í haust. Með þessari aðferð bind ég vonir við að hægt verði að nálgast markmið um þá samfélagslegu sátt sem þarf að ríkja um íslenska náttúru og vernd hennar.

Góðir gestir,

Afstaða manna til náttúrunnar hefur í gegnum tíðina borið sterkan keim af því siðfræðilega viðhorfi sem kennt er við mannhyggju. Það viðhorf hefur þann útgangspunkt að maðurinn sé eina siðferðisveran og af því leiði að ekki sé hægt að meta náttúrulega hluti nema í tengslum við tilgang og markmið mannsins. Það leiði til þess að réttur og hagsmunir manna eigi að liggja til grundvallar allri löggjöf í umhverfis- og náttúruverndarmálum.

Í seinni tíð hefur náttúruhyggja hins vegar í auknum mæli rutt sér til rúms með því að náttúran eigi sjálfstæðan rétt og sjálfstæða stöðu, óháð tengslum við manninn og umhverfi hans, sem beri að taka mið af og gæta.

Þessi sjónarmið togast að vísu á bæði í regluverki og framkvæmd og hefur hið mannhverfa viðhorf gjarnan verið ríkjandi og hagsmunir mannsins verið meginástæðan fyrir náttúruvernd. Við ættum samt öll alltaf að hafa í huga þegar fjallað er um náttúruvernd að náttúran getur lifað án mannsins en maðurinn ekki án hennar.

Náttúrufræðistofnun Íslands gegnir mikilvægu hlutverki í mótun stefnu um íslenska náttúruvernd. Hlutverk stofnunarinnar á sviði grunnrannsókna og skráningar á náttúrufari er forsenda fyrir allri umgengni okkar við náttúruna og um nýtingu lands. Það er á grundvelli þessara upplýsinga sem stjórnvöld eiga að móta stefnu um skipan náttúruverndarmála. Náttúrufræðistofnun, saga hennar, rætur og sérfræðiþekking er mikilvægur brunnur og grundvöllur ákvarðana stjórnvalda varðandi ráðstöfun lands og náttúrulegra gæða. Vonandi tekst okkur áfram að stíga skref í átt til almenns skilnings á mikilvægi náttúruvísinda á Íslandi og þætti fræðanna í því að hlúa að, virða og varðveita náttúruna. Vonandi tekst okkur í sameiningu, stjórnmálunum, fræðunum í samvinnu við almenning að skipa íslenskri náttúru þann sess sem henni ber. Alltaf.

Takk fyrir

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta