Græni trefillinn fær fjármagn fyrir lokaáfanga verkefnisins
Innanríkisráðherra og formaður Skógræktarfélags Íslands endurnýjuðu í dag samning um verkefni sem kennt hefur verið við ,,Græna trefilinn”. Felur hann í sér að ráðuneytið tryggir fjárframlag sem ásamt mótframlögum nægir til að ná 220 ársverkum við skógrækt en verkefnið hófst árið 2009 og er fjárframlagið alls 200 milljónir króna.
Verkefnið er unnið í samvinnu við sveitarfélög og sér Skógræktarfélag Íslands um skipulagningu á landsvæðum skógræktarfélaga víðs vegar um landið en sveitarfélögin sjá um að ráða starfsfólk til að sinna verkefnunum samkvæmt nánari samningum sveitarfélaga og Skógræktarfélagsins. Verkefnin eru meðal annars stígagerð, skógrækt, áburðargjöf, umhirða, smíðavinna og fleira og eru þau að mestu unnin á tímabilinu 1. maí til 31. október ár hvert.
Magnús Gunnarsson, formaður Skógræktarfélags Íslands, og Ögmundur Jónasson innanríkisráðherra skrifuðu undir samninginn í dag í ráðuneytinu. Þegar hefur verið unnið fyrir tæpar 100 milljónir króna og verða 102 milljónir greiddar Skógræktarfélagi Íslands í ár samkvæmt samningnum.
Árið 2009 tóku átján sveitarfélög þátt í verkefninu en níu í fyrra en auk þeirra tóku nokkur skógræktarfélög þátt. Unnin voru í fyrra kringum 45 ársverk á þessu sviði.
Á þessu ári verður meðal annars lögð áhersla á að fá Skógræktarfélag Reykjavíkur og Reykjavíkurborg til þátttöku. Unnið er að endurskoðun á svæðisskipulagi höfuðborgarsvæðisins og samkvæmt því mun um 50 km grænn stígur liggja í útjaðri græna trefilsins og austan byggðar sveitarfélaga á höfuðborgarsvæðinu allt milli Esjuhlíða í norðri og Undirhlíða í suðri. Með tilkomu græna stígsins verður því unnt að líta á svæðið sem eina heild.