Hoppa yfir valmynd
5. apríl 2011 Forsætisráðuneytið

Efling atvinnu og byggðar á Vestfjörðum

Í dag, þriðjudaginn 5. apríl, hélt ríkisstjórn Íslands fund á Ísafirði. Á fundinum voru samþykkt 16 verkefni er snúa að eflingu byggðar og atvinnusköpun í landshlutanum. Verkefnin hafa verið undirbúin í samvinnu allra ráðuneyta og í samráði við heimamenn. Andvirði verkefnanna er um 5,4 milljarðar króna. Verkefnin snúa m.a. að menntun, velferð, umhverfismálum og auknum framkvæmdum í vegagerð og snjóflóðavörnum. Ætlunin er að fylgja verkefnunum eftir á samráðsvettvangi stjórnvalda og sveitarfélaga með það að markmiði að ábyrgð þeirra færist í auknum mæli heim í hérað. Sú vinna tengist gerð sóknaráætlana landshluta og markmiðum sem sett eru fram í stefnumarkandi skjali stjórnvalda, Ísland 2020.

Fyrir ríkisstjórnarfundinn heimsótti ríkistjórnin Háskólasetur Vestfjarða og kynnti sér starfsemi mennta-, atvinnuþróunar- og rannsóknastofnana á svæðinu. Þá fundaði ríkisstjórnin jafnframt með sveitarstjórnarfólki af svæðinu þar sem verkefnin voru kynnt og rædd. Orkumál, flutningskostnaður og samgöngumál voru mikið rædd á fundinum. Með fundi sínum og þeim aðgerðum sem þar voru kynntar vilja stjórnvöld senda skýr skilaboð um að byggð á Vestfjörðum verður varin.

Verkefnin eru eftirfarandi:

1. Samstarf háskóla-, þekkingar- og fræðasetra á Vestfjörðum

Tveggja ára þróunar- og uppbyggingarverkefni í menntamálum og rannsóknum. Stefnt verði að því að efla mannauð, samþætta og styrkja grunnstoðir og vinna að nýsköpun. Ráðnir verða tveir verkefnisstjórar. Verkefnahópur mun verða skipaður til að stýra verkefninu sem vinnur með verkefnastjórunum.

2. Tryggt verði áframhaldandi gott framboð á námi á framhaldsskólastigi á Vestfjörðum

Tryggður verði áframhaldandi rekstur framhaldsdeildar Fjölbrautaskóla Snæfellinga á Patreksfirði auk þess sem stoðir Menntaskólans á Ísafirði verði styrktar.

3. Átaksverkefni á ýmsum sviðum, vinnumarkaðsúrræði

Sett verða upp átaksverkefni innan Vinnumálastofnunar á Ísafirði, með áherslu á störf á Flateyri sem veita 10 manns vinnu í 3-5 mánuði.

4. Skráning gagna fyrir Þjóðskjalasafn Íslands

Stöðugildum við skráningu fjölgað úr þrem í fjögur.

5. Aukaframlag til Fræðslumiðstöðvar Vestfjarða

Bætt verði við átta fræðslunámskeiðum á Flateyri á vorönn 2011. Um er að ræða 60 kennslustunda námskeið, sex fyrir útlendinga og tvö fyrir Íslendinga.

6. Látrabjargsstofa

Sett verður á fót Látrabjargsstofa (Látrastofa). Þar starfi heilsárs sérfræðingur sem hefur umsjón og eftirlit með svæðinu sem kennt er við Látrabjarg - Rauðasand. 7. Starfsemi Fjölmenningarseturs á Vestfjörðum verði tryggð

Starfsemi Fjölmenningarseturs verður tryggð með löggjöf um aðlögun innflytjenda og verður gerð að stofnun sem heyrir undir velferðarráðuneytið.

8. Öldrunarþjónusta, samstarf, heimahjúkrun o.fl

Ráðist verður í samstarfsverkefni um öldrunarþjónustu einkum á Flateyri.

9. Öldrunarheimilið Barmahlíð, Reykhólasveit

Starfsemi varin og rýmum ekki fækkað.

10. Samstarf um byggingu hjúkrunarheimilis á Ísafirði og endurbyggingu hjúkrunarheimilis í Bolungarvík skoðað m.t.t. leiguleiðar

11. Raforkumál

Samráðsvettvangur stjórnvalda og sveitarfélaga á Vestfjörðum rýnir skýrslu um „Orkuöryggi á Vestfjörðum – Áhrif á samkeppnisstöðu og atvinnuþróun“ og fylgir eftir með aðgerðum til úrbóta.

12. Melrakkasetur

Undirstöður Melrakkasetur Íslands á Súðavík tryggðar með þjónustusamningi.

13. Húshitunarkostnaður

Unnið verður með samtökum sveitarfélaga á köldum svæðum að lækkun og jöfnun húshitunarkostnaðar.

14. Flutningskostnaður

Sett verður fram áætlun um jöfnun flutningskostnaðar innan ramma nýrrar efnahagsáætlunar. Tillögur liggi fyrir við fyrstu endurskoðun áætlunarinnar í haust.

Áætlaður kostnaður við liði 1-14 er allt að 102 milljónir króna

15. Ofanflóðavarnir á Vestfjörðum

Undirbúningi framkvæmda vegna tveggja verkefna við ofanflóðavarnir hraðað þannig að framkvæmdir geti hafist vorið 2012. Annars vegar varnir undir Gleiðarhjalla á Ísafirði og hins vegar gerð varnargarðs á Patreksfirði. Verkefnin fela í sér u.þ.b. 70 ársverk.

Áætlaður kostnaður við lið 15 er 1 ma. króna.

16. Margvísleg verkefni í vegagerð á Vestfjörðum

I. Vegaframkvæmdir á Vestfjörðum, samþykkt á samgönguáætlun

Nýbyggingar:

· Vestfjarðavegur um Skálanes,

· Vestfjarðavegur Eiði-Þverá,

· Strandavegur í Steingrímsfirði.

II. Aðrar vegaframkvæmdir á Vestfjörðum

· Til viðbótar við þau verkefni sem eru á samgönguáætlun verður ráðist í ný verkefni samkvæmt faglegu mati Vegagerðarinnar fyrir 350 milljónir króna. Mat Vegagerðarinnar ræðst af því hver verkefnanna séu best til þess fallin að auka atvinnu, bæta öryggi vegfaraenda og bæta ástand vegamála á Vestfjörðum almennt.

· Einnig munu stjórnvöld leggja á það sérstaka áherslu, á fyrirhuguðum samráðsvettvangi með heimamönnum, að fara yfir möguleika á sáttaleið og leita leiða til þess að flýta framkvæmdum við Vestfjarðaveg um Barðaströnd.

.

Áætlaður kostnaður við lið 16 er 4.3 ma. króna.

Heildarkostnaður við alla liði er áætlaður 5.4 ma. króna, af því er tæpur 1.5 ma króna nýtt fjármagn.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta