Hoppa yfir valmynd
5. apríl 2011 Utanríkisráðuneytið

Samstöðuyfirlýsing utanríkisráðherra Norðurlandanna og málefni Líbíu

Radherrarnir-5-close-up
Radherrarnir-5-close-up

Össur Skarphéðinsson utanríkisráðherra tók í dag þátt í fundi utanríkisráðherra Norðurlandanna sem haldinn var í Helsinki. Norrænu ráðherrarnir sendu frá sér sameiginlega samstöðuyfirlýsingu, þar sem þeir lögðu áherslu á þau sterku, sameiginlegu gildi sem tengi löndin. Alþjóðalög um mannréttindi, jafnrétti og sjálfbæra þróun séu hornsteinar utanríkisstefnu Norðurlandanna. Á grunni sameiginlegra hagsmuna og landfræðilegrar nándar sé eðlilegt að Norðurlöndin takist sameiginlega á við þau mál sem brenna á hverju sinni á sviði utanríkis- og öryggismála.

Í þessu sambandi ræddu ráðherrarnir þær ógnir sem að kunna að steðja; bæði náttúrulegar og af mannavöldum, netógnir og hryðjuverk. Standi norrænt ríki frammi fyrir slíkri ógn munu hin ríkin, að fenginni ósk þess sem um ræðir, koma til aðstoðar. Aukin norræn samvinna er í fullu samræmi við öryggis- og varnarstefnu ríkjanna og til viðbótar þeirri Evrópu- og NorðurAtlantshafs-samvinnu sem ríkin eiga aðild að. Þessari samstöðuyfirlýsingu verður fylgt eftir með aðgerðum, m.a. á sviði bætts netöryggis.

Þá ræddu utanríkisráðherrarnir málefni Líbíu og lýstu stuðningi við auknar lýðræðiskröfur sem fram hefðu komið víða í Norður-Afríku og Mið-Austurlöndum. Ráðherrarnir fordæmdu ofbeldi sem friðsamir mótmælendur hefðu verið beittir og minntu á þá skyldu stjórnvalda að vernda mannréttindi íbúa sinna, tjáningafrelsi þeirra og réttinn til að koma saman.

Norrænu ráðherrarnir sögðu Gaddafí ekki lengur lögmætan leiðtoga Líbíu og skoruðu á hann að segja af sér þegar í stað. Alþjóðasamfélagið hefði brugðist við sameiginlega og af festu við ástandinu í Líbíu og mikilvægt væri að svæðisbundin samtök Araba- og Afríkuríkja væru áfram hluti aðgerða þess. Ráðherrarnir ítrekuðu stuðning sinn við ályktanir öryggisráðs Sameinuðu þjóðanna um refsiaðgerðir og loftferðabann yfir Líbíu og sögðu nauðsynlegt að bæta stöðu almennra borgara. Ráðherrarnir kölluðu eftir vopnahléi og frekari aðgerðum til að finna lausn á ástandinu.

Þá ræddu utanríkisráðherrarnir norðurslóðamál, einkum ráðherrafund Norðurskautsráðsins sem haldinn verður í Nuuk á Grænlandi í maí. Ennfremur stöðu mála í Afganistan en ráðherrarnir fordæmdu harðlega árásina sem gerð var sl. föstudag á búðir Sameinuðu þjóðanna í Mazar-e-Sharif þar sem sjö starfsmenn SÞ létu lífið, þeirra á meðal Norðmaður og Svíi.

Texta samstöðuyfirlýsingar utanríkisráðherranna má lesa hér.

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta