Hoppa yfir valmynd
6. apríl 2011 Matvælaráðuneytið

Athugasemd við umræðu stjórnmálafræðings um sjálfbæra nýtingu á norðurslóð

 

Athugasemd við umræðu stjórnmálafræðings um sjálfbæra nýtingu á norðurslóð

Eiríkur Bergmann stjórnmálafræðingur fjallaði í fréttum Stöðvar 2 þann 29. mars 2011 um deilu þjóða á norðurslóðum við Evrópusambandið um viðskiptabann með selaafurðir. Tilefnið var sú ákvörðun íslenskra stjórnvalda að Ísland tæki þátt í kæru Kanada gegn nefndu viðskiptabanni. Eiríkur kaus að setja þessa deilu í samhengi við ESB umsókn Íslands og taldi hana broslega.

Við þessa afstöðu verður að gera nokkrar athugasemdir. Ákvörðun Íslands um þátttöku í kæruferli Kanada var ekki kynnt af sjávarútvegs- og landbúnaðarráðuneyti né heldur unnin í andstöðu við utanríkisráðuneytið, eins og ætla hefði mátt af frétt Stöðvar 2. Þvert á móti var umrædd ákvörðun kynnt af fulltrúa utanríkisráðuneytisins hjá fastanefnd Íslands í Genf en málið er á sameiginlegu forræði þess og sjávarútvegs- og landbúnaðarráðuneytis. Utanríkisráðuneytið fer með fyrirsvar málsins á alþjóðavettvangi en sjávarútvegs- og landbúnaðarráðuneytið fer með faglega hlið þess.

Þá er þess að geta að ákvörðunin er í fullu samræmi við fyrri yfirlýsingar og fyrri afstöðu Íslands til sjálfbærrar nýtingar auðlinda sem ítrekuð hefur verið á alþjóðavettvangi, síðast í september síðastliðnum en einnig í apríl 2009 og júlí 2010.

Afstaða Íslands er hér í samræmi við Ríósáttmálann frá 1992 þar sem byggt er á því að sjálfbær nýting auðlinda sé ákveðin trygging fyrir greiðum aðgangi að alþjóðamörkuðum séu önnur skilyrði uppfyllt. Sáttmáli þessi er einnig afar mikilvægur til þess að skapa sátt um líffræðilega fjölbreytni og náttúruvernd.

Í viðtali við Stöð 2 sagði Eiríkur Bergmann að Evrópusambandið hefði á grundvelli náttúruverndar bannað viðskipti með sela- og hvalaafurðir en það er ekki rétt. Viðskiptabann ESB vegna innfluttra selaafurða samkvæmt reglugerð Evrópusambandsins nr. 1007/2009 er ekki sett á grundvelli þess sem á íslensku er kallað náttúruvernd heldur vegna hugmynda sem snúa fremur að siðfræði og mismunandi eðli dýrategunda þar sem sjónarmið um mannhelgi og réttindi einstaklinga eru lögð til grundvallar í umræðu um veiði. Í texta með umræddri reglugerð ESB er meðal annars vikið að því að selir séu sérstaklega tilfinninganæm dýr og að dráp geti valdið streitu meðal einstaklinga í stofninum.

Barátta gegn selveiðum á undangengnum áratugum hefur svipt fjölmörg frumbyggjasamfélög og dreifbýl héruð á norðurslóð lífsafkomu sinni og haft slæm áhrif á lífskjör og sjálfbæra nýtingu á norðurslóðum. Það að áframhaldandi þátttaka Íslands í baráttu fyrir sjálfbærri nýtingu náttúruauðlinda sé broslegt andóf gegn aðildarumsókn Íslands að ESB er ekki stutt rökum og getur hvorki talist mjög fagleg né fræðileg nálgun á því viðfangsefni sem hér er til umfjöllunar.

 

Bjarni Harðarson, upplýsingafulltrúi í sjávarútvegs- og landbúnaðarráðuneyti

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta