Drög að frumvarpi til laga um breyting á jarðalögum, nr. 81/2004, og ábúðarlögum, nr. 80/2004, til almennra athugasemda.
Sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra hefur ákveðið að veita frest til almennra athugasemda um fyrirliggjandi drög að frumvarpi til laga um breyting á jarðalögum, nr. 81/2004, með síðari breytingum, og ábúðarlögum, nr. 80/2004, með síðari breytingum.
Forsaga frumvarps þessa er að vinnuhópur um endurskoðun jarða- og ábúðarlaga var upphaflega skipaður með bréfi sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra, dags. 21. ágúst 2009. Í erindisbréfi sem tekur meðal annars mið af samstarfsyfirlýsingu ríkisstjórnarflokkanna og skýrslu nefndar um landnotkun sem skilaði af sér áliti í febrúar 2010 er vísað til þess að þörf sé á að skerpa á skynsamlegri landnýtingu með tilliti til fæðuöryggis þjóðarinnar og eflingu búsetu í sveitum landsins. Í fylgiskjali með skipunarbréfinu var síðan gerð nánari grein fyrir verkefninu. Vinnuhópurinn skilaði af sér ítarlegri skilagrein til ráðherra, dags. 1. desember sl., ásamt vinnuskjali sem innihélt drög að ýmsum lagabreytingum.
Í ráðuneytinu hefur svo verið unnið áfram með frumvarpið með hliðsjón af niðurstöðum vinnuhópsins og ákvörðunum ráðherra. Bent er sérstaklega á kaflann: Meginbreytingar frá núgildandi löggjöf sem felast í frumvarpinu, bls. 10-13.
Óskað er umsagnar á frumvarpi þessu, svo sem ábendingar eða athugasemdir um efni frumvarpsins. Frestur til að skila umsögnum er til 27. apríl 2011. Athugasemdir skulu sendar bréflega á sjávarútvegs- og landbúnaðarráðuneytið eða netfang ráðuneytisins: [email protected]
Frumvarpsdrögin ásamt skýringum má sjá hér.
Samstarfsyfirlýsing ríkisstjórnarflokkanna