Hoppa yfir valmynd
10. apríl 2011 Forsætisráðuneytið

Yfirlýsing ríkisstjórnar Íslands í kjölfar þjóðaratkvæðagreiðslu um Icesave-samninga

Í gær, 9. apríl 2011, fór fram þjóðaratkvæðagreiðsla um frambúðargildi laga nr. 13/2011 um heimild til handa fjármálaráðherra til að staðfesta samninga vegna Icesave. Atkvæðagreiðslan var haldin á grundvelli 26. gr. stjórnarskrár lýðveldisins Íslands.
 
Niðurstaða atkvæðagreiðslunnar liggur nú fyrir og er ljóst að meirihluti þeirra sem þátt tóku í atkvæðagreiðslunni hefur hafnað því að lögin haldi gildi.Stjórnvöldum í Bretlandi og Hollandi hefur þegar verið tilkynnt um niðurstöður þjóðaratkvæðagreiðslunnar og jafnframt að ekki séu forsendur til að samningar þeir sem náðst höfðu í viðræðum þjóðanna verði staðfestir.

Að fenginni þessari niðurstöðu munu stjórnvöld svara áminningarbréfi frá Eftirlitstofnun EFTA frá 26. maí sl., að höfðu samráði við utanríkismálanefnd Alþingis. Af hálfu íslenskra stjórnvalda verður lögð áhersla á að meðferð málsins verði hraðað eins og kostur er þar sem óvissa um lyktir málsins er engum í hag.

Rétt er jafnframt að taka fram að niðurstaða atkvæðagreiðslunnar hefur ekki áhrif á skipti bús Landsbanka Íslands hf., sem fer fram á grundvelli íslenskra laga. Væntingar standa til þess að úthlutun úr búinu hefjist í sumar og eru góðar líkur á að eignir búsins muni að lang mestu eða öllu leyti duga fyrir forgangskröfum vegna Icesave.

Mikilvægt er að eyða nú, eins og kostur er, þeirri óvissu sem niðurstaða þjóðaratkvæðagreiðslunnar óhjákvæmilega skapar. Ríkisstjórnin mun eiga viðræður um stöðuna við formenn stjórnarandstöðuflokkanna, samtök launafólks og atvinnurekenda í tengslum við stöðu kjaraviðræðna og vinna náið með Seðlabankanum.  Einnig verða viðræður við Alþjóðagjaldeyrissjóðinn og samstarfsþjóðirnar, hin Norðurlöndin og Pólland, til að freista þess að tryggja hnökralausa framvindu efnahagsáætlunarinnar.

Ríkisstjórnin mun nú, líkt og áður, standa vörð um stöðugleika í íslensku efnahags- og fjármálalífi og halda áfram á þeirri braut uppbyggingar sem mörkuð hefur verið í kjölfar efnahagshrunsins haustið 2008, þar sem mikill og ótvíræður árangur hefur náðst. Engu að síður er ljóst að niðurstaða þjóðaratkvæðagreiðslunnar kallar á visst endurmat á forsendum ríkisfjármála- og efnahagsmála. Það endurmat mun liggja fyrir í fyrrihluta maímánaðar.

 

Reykjavík, 10. apríl 2011.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta