Brugðist við rannsóknarskýrslu með frumvarpi til laga um Stjórnarráð Íslands
Frumvarp til nýrra laga um Stjórnarráð Íslands hefur verið lagt fram á Alþingi. Frumvarpið er byggt á niðurstöðum og tillögum sem settar voru fram í skýrslu rannsóknarnefndar Alþingis, tillögum starfshóps sem forsætisráðherra skipaði um viðbrögð við skýrslu rannsóknarnefndar Alþingis, skýrslu þingmannanefndar sem fjallaði um skýrslu rannsóknarnefndar Alþingi og loks tillögum nefndar um endurskoðun á lögum um Stjórnarráð Íslands sem birtar voru í skýrslunni „Samhent stjórnsýsla“ sem gefin var út í desember 2010.
Helstu breytingar sem lagðar eru til í frumvarpinu eru þessar: Í fyrsta lagi er lagt til að sú löggjafarframkvæmd að telja ráðuneyti upp í lögum um Stjórnarráð Íslands verði aflögð. Þess í stað er lagt til að einungis verði kveðið á um hámarksfjölda ráðuneyta í Stjórnarráðinu, en ákvörðunarvald um það hvaða ráðuneyti skuli starfrækt, innan þeirra marka, hvíli hjá stjórnvöldum á hverjum tíma. Markmið þessarar breytingar er stuðla að auknum sveigjanleika í starfsemi Stjórnarráðsins og auðvelda stjórnvöldum að skipuleggja Stjórnarráðið í samræmi við þau verkefni sem mest eru aðkallandi á hverjum tíma og þær pólitísku áherslur sem uppi eru um leið.
Í öðru lagi eru lagðar til breytingar sem hafa það að markmiði að efla samhæfingu starfa á milli ráðherra. Kveðið verði á um skyldu ráðherra til að leitast við að samhæfa stefnu sína og aðgerðir þegar málefni og málefnasvið skarast og auk þess kveðið sérstaklega á um skyldu forsætisráðherra til að hafa frumkvæði að samhæfingu starfa ef á þarf að halda. Í þessu sambandi er nánar kveðið á um það hvaða mál sé skylt að bera upp í ríkisstjórn og mælt fyrir um starfsemi ráðherranefnda. Þessar breytingar eru í samræmi við tillögur og umfjöllun í framangreindum skýrslum og jafnframt í samræmi við tillögur og umfjöllun í nýútkominni skýrslu stjórnlaganefndar.
Í þriðja lagi er í frumvarpinu lagt til að kveðið verði á um stjórnunar- og eftirlitsheimildir ráðherra með undirstofnunum og sjálfstæðum stofnunum og með eignum ríkisins þar á meðal eignum ríkisins í einkaréttarlegum lögaðilum en þessar skyldur hafa hingað til almennt verið byggðar á ólögfestum meginreglum.
Í fjórða lagi eru í frumvarpinu lagðar til ýmsar breytingar sem lúta að starfsmannahaldi og mannauðsmálum ráðuneyta. Lagt er til að ráðherrum verði skylt að skipa hæfnisnefndir sem hafi það hlutverk að meta hæfni umsækjanda við skipun í embætti ráðuneytisstjóra og skrifstofustjóra. Þá er lagt til að kveðið verði skýrar á um heimildir ráðherra til að flytja starfsmenn á milli ráðuneyta vegna tímabundinna verkefna og varanlega eftir atvikum t.d. þegar stjórnarmálefni eru flutt á milli ráðuneyta eða áherslur í starfsemi Stjórnarráðsins eða tímabundinn verkefni krefjast þess.
Loks er lagt til í því skyni að efla stefnumótun í ráðuneytum að ráðherrum verði heimilt að ráða, auk aðstoðarmanns, sérstakan ráðgjafa ráðherra án auglýsingar. Um ráðgjafa ráðherra gildir sama regla og um aðstoðarmann ráðherra að hann gegnir störfum svo lengi sem ráðherra ákveður, en þó ekki lengur en ráðherrann sjálfur. Vegna aðhalds í rekstri ráðuneyta er þó ekki gert ráð fyrir að þessi heimild taki gildi fyrr en að afloknum næstu alþingiskosningum.