Aðgerðir til að sporna við ofbeldi karla gegn konum í nánum samböndum
Guðbjartur Hannesson velferðarráðherra hefur lagt fyrir Alþingi skýrslu með tillögum um ýmsar aðgerðir til að sporna við ofbeldi karla gegn konum í nánum samböndum.
Skýrslan er lögð fram í samræmi við aðgerðaáætlun ríkisstjórnarinnar frá árinu 2006 vegna ofbeldis á heimilum og kynferðislegs ofbeldis. Aðgerðaáætlunin var sett fram í tveimur hlutum. Fyrri hlutinn fjallaði um aðgerðir vegna ofbeldis á heimilum og kynferðislegs ofbeldis gegn börnum en sá síðari um aðgerðir vegna ofbeldis á heimilum og kynferðislegs ofbeldis gegn konum.
Í áætluninni voru settar fram aðgerðir sem lúta jafnt að forvörnum og viðbrögðum við afleiðingum kynbundins ofbeldis. Í skýrslu ráðherra sem nú hefur verið lögð fyrir Alþingi er fjallað um þær aðgerðir sem unnið hefur verið að í samræmi við áætlunina og birtar niðurstöður sex viðamikilla rannsókna á þessu sviði sem áður hafa verið kynntar. Jafnframt eru lagðar fram tillögur til stjórnvalda um frekari aðgerðir til þess að fyrirbyggja ofbeldi gegn konum, styrkja úrræði fyrir konur sem eru beittar ofbeldi og börn þeirra og hjálpa körlum til að binda endi á beitingu ofbeldis.