Dýrafjörðurinn verður vettvangur fyrir Norrænar handverkssumarbúðir
Ferðaþjónustuflóran er ótrúlega fjölbreytt og meðal skemmtilegra viðburða eru Norrænar handverkssumarbúðir sem haldnar verða á Núpi við Dýrafjörð í sumar. Öll fjölskyldan getur fundið þar fjölmargt við sitt hæfi enda spennandi námskeið í boði fyrir alla aldurshópa. Og í námskeiðsframboðinu kennir margra grasa, s.s. námskeið í spjaldvefnaði, eldsmíði, tálgun úr ýsubeinum, leggjaflautusmíði og leikbrúðugerð svo nokkuð sé nefnt.
Sumarbúðirnar verða á Núpi frá 3-9. júlí og auk handverksins verður hægt að skoða umhverfið í skipulögðum ferðum, taka þátt í kvöldvökum, fara á leiksýningar og margt fleira. Þátttakendur verða frá öllum Norðurlöndunum og mun íbúafjöldinn í Dýrafirði líklega tvöfaldast þessa dýrðlegu daga á meðan á sumarbúðunum stendur.