Iðnaðarráðherra mælir fyrir tveimur nýjum frumvörpum til laga á Alþingi
Breytingar á lögum nr. 13/2001, um leit, rannsóknir og vinnslu kolvetnis eru liður í undirbúningi að næsta útboði á sérleyfum til rannsókna og vinnslu kolvetnis innan íslenskrar efnahagslögsögu, á svokölluðu Drekasvæði. Fyrirhugað er að það útboð fari fram á tímabilinu ágúst til desember 2011.
Jafnframt er með frumvarpinu verið að bregðast við athugasemdum frá Eftirlitsstofnun EFTA í tengslum við það skilyrði núgildandi kolvetnislaga að leyfishafi verði að skrá sérstakt félag hér á landi um starfsemi sína.
Með hliðsjón af þeirri reynslu sem hlaust af fyrsta útboði sérleyfa á Drekasvæðinu, í byrjun árs 2009, og að höfðu samráði við nágrannaríki Íslands, er talið æskilegt að gera tilteknar endurbætur á kolvetnislögunum nr. 13/2001 með það fyrir augum að íslensk stjórnvöld verði reiðubúin með traust og alþjóðlegt lagalegt umhverfi þegar kemur að næsta útboði á svæðinu á síðari hluta þessa árs. Ekki er um að ræða grundvallarbreytingar á lögum nr. 13/2001 heldur er fyrst og fremst verið að sníða af þeim helstu vankanta sem í ljós hafa komið í kjölfar síðasta útboðs.
Í þessari viku mælti fjármálaráðherra jafnframt fyrir frumvarpi til nýrra laga um skattlagningu á kolvetnisvinnslu. Er það mikilvægur þáttur svo að unnt sé að hefja af fullum krafti kynningu á því regluverki sem gilda muni fyrir næsta útboð sérleyfa á Drekasvæðinu.
Með frumvarpinu um breytingu á vatnalögum, nr. 15/1923 og lögum nr. 57/1998, um rannsóknir og nýtingu á auðlindum í jörðu eru lagðar til breytingar á þeim ákvæðum vatnalaga og laga um rannsóknir og nýtingu á auðlindum í jörðu, er snúa að heimildum opinberra aðila til að veita tímabundið afnotarétt að vatnsafls- og jarðhitaréttindum. Lagt er til að heimilt verði að veita tímabundið afnotarétt að vatnsréttindum til allt að 40 ára og jarðhitaréttindum til allt að 30 ára frá því að nýting á auðlindinni hefst, í stað 65 ára í senn eins og núgildandi lög gera ráð fyrir. Ástæða þess að lagt er til að mismunandi hámarkstími afnotaréttar verði fyrir nýtingu vatnsafls annars vegar og jarðvarma hins vegar er að mun meiri óvissa og minni þekking er á nýtingu jarðvarma og því sterkari rök fyrir styttri leigutíma þegar um slíka auðlind er að ræða.
Samkvæmt núgildandi lögum getur handhafi tímabundins afnotaréttar, að vissum skilyrðum uppfylltum, fengið framlengingu á nýtingarrétti sínum til allt að 65 ára í senn. Með frumvarpinu er lagt til að þessu ákvæði verði breytt þannig að afnotahafi auðlindar hafi, að ákveðnum skilyrðum uppfylltum, forgangsrétt til að endursemja einu sinni um áframhaldandi afnot auðlindarinnar til allt að 20 ára frá því hinn upphaflegi samningur rennur út, enda standi ekki til að gera breytingar á nýtingu auðlindarinnar. Í frumvarpinu eru sett ákveðin skilyrði fyrir slíkri framlengingu sem miða m.a. að því tryggja góða umgengni við auðlindina. Markmið ákvæðis um forgangsrétt afnotahafa er að hvetja þann sem nýtir auðlindina til að gera það á sem skynsamlegastan og hagkvæmastan hátt.
Með frumvarpinu er jafnframt lagt til að í reglugerð sé heimilt að kveða á um hvernig standa skuli að úthlutun hinna tímabundnu afnotaréttinda þegar um er að ræða réttindi undir yfirráðum ríkisins.
Í ljósi þeirra hagsmuna sem hér um ræðir er mikilvægt að samningar um tímabundinn afnotarétt að vatnsafls- og jarðhitaréttindum séu sem best úr garði gerðir. Með hliðsjón af því er með frumvarpinu lagt til að í slíkum samningum verði meðal annars kveðið á um skyldur afnotahafa, skilyrði nýtingarleyfis, umgengni við náttúru, ábyrga nýtingu, hvernig skuli farið með mannvirki í lok samningsins og hvernig frágangi auðlindarinnar skuli háttað við lok samningstíma.
Tillögur frumvarpsins byggja að hluta á niðurstöðu nefndar forsætisráðherra um fyrirkomulag varðandi leigu á vatns- og jarðhitaréttindum í eigu ríkisins, sbr. ákvæði III til bráðabirgða í lögum nr. 58/2008. Einnig taka tillögur frumvarpsins mið af vinnu stýrihóps um heildstæða orkustefnu sem hefur verið starfandi síðan í ágúst 2009. Við vinnu að framangreindum skýrslum var haft víðtækt samráð við hagsmunaaðila og stjórnvöld.