Menningarsamningum hringinn í kringum landið er ætlað að efla menningu og menningartengda ferðaþjónustu
Menningartengdri ferðaþjónustu vex stöðugt ásmegin enda staðfesta allar kannanir að ferðamenn, bæði innlendir og útlendir, eru sólgnir í fróðleik, sögu, tónlist og allra handa menningu. Til að efla menningartengda ferðaþjónustu – og reyndar menningu almennt – voru undirritaðir í dag svokallaðir menningarsamningar til þriggja ára sem fela í sér að árlega verður 250,7 m.kr. varið til þessara mála. Samningarnir eru alls sjö að tölu og eru samningsaðilarnir iðnaðarráðuneytið, mennta- og menningarmálaráðuneytið, Samband sveitafélaga á Norðurlandi Eystra, Austurlandi, Suðurlandi, Suðurnesjum, Vesturlandi, Vestfjörðum og Norðurlandi vestra. Þar með er stuðningi ríkisins beint í einn farveg í því skyni að efla slíkt starf um landið allt og gera það sýnileg.
Markmið menningarsamninganna er að efla samstarf á sviði menningarmála á hverju svæði auk þess að stuðla að nýsköpun, fjölbreytni og fjölgun atvinnutækifæra á sviði í menningar, lista og menningartengdar ferðaþjónustu. Á hverju svæði starfa menningarráð sem eru vettvangur samtarfs sveitarfélganna og hafa það hlutverk að standa fyrir þróunarstarfi og úthluta fé til verkefna á sviði menningar og menningartengdrar ferðaþjónstu.