Viðburðir á Degi umhverfisins
Dagur umhverfisins er haldinn 25. apríl ár hvert og í ár verður hann tileinkaður skógum. Efnt verður til ýmissa viðburða af þessu tilefni:
Reykjavíkurborg stendur fyrir mörgum viðburðum í apríl sem eru meðal annars tengdir Degi umhverfisins. Hægt er að nálgast upplýsingar um þá á heimasíðu borgarinnar.
Í Borgarbyggð mun umsjónarnefnd Einkunna bjóða til skógargöngu í Einkunnum þann 25. Apríl kl. 10:00. Safnast verður saman á bílastæðinu við Álatjörn. Nánari upplýsingar eru veittar á heimasíðu Borgarbyggðar.
Í Mosfellsbæ verður skrifað undir samning milli Mosfellsbæjar annars vegar og Skógræktarfélags Mosfellsbæjar og Hestamannafélagsins Harðar hins vegar, um skógrækt og uppgræðslu á Langahrygg í Mosfellsdal. Samningurinn verður undirritaður á Langahrygg þriðjudaginn 26. Apríl kl. 16:30. Markmiðið er að breyta –örfoka landi í gróðurríkt svæði þar sem fara saman möguleikar til hrossabeitar, skógræktar og útivistar.
Þann 26. apríl mun starfsfólk og nemendur leikskólans Tjarnabæjar á Ísafirði fara í Tjarnarlund, lítið skóglendi í nágrenni skólans. Þar verður svæðið hreinsað af rusli.
Í Kópavogi veður boðið upp á skógar- og fjölskyldugöngu þann 28. apríl kl. 17:00 og verður gengið frá Guðmundarlundi. Sjá nánar á heimasíðu Skógræktarfélags Kópavogs. Þá hefur Kópavogur tekið saman upplýsingar um skógarreiti og trjálundi víðsvegar í bænum ásamt lista yfir verkefni og námsefni sem hefur verið komið á framfæri við leikskóla og grunnskóla bæjarins. Skógræktarfélag Kópavogs mun einnig bjóða upp á sérstaka umhverfis- og skógarfræðslu fyrir skólabörn í Kópavogi dagana 27.-29. apríl í samvinnu við grunnskóladeild Kópavogs. Hægt er að panta tíma með því að senda tölvupóst á [email protected].
Þann 28. apríl mun Svandís Svavarsdóttir afhenda viðurkenningar fyrir framlag til umhverfismála. Um er að ræða Náttúruverndarviðurkenningu Sigríðar í Brattholti og Kuðunginn. Einnig útnefnir umhverfisráðherra Varðliða umhverfisins. Viðurkenningarnar verða afhentar í Þjóðmenningarhúsinu fimmtudaginn 28. apríl kl. 10:00.