Langtímastefnumörkun í orkumálum ... forsenda þess að við sjáum ljósið!
Forsjónin blessaði Ísland með gríðarmiklum orkuauðlindum. Spurningin er hins vegar hvernig við nýtum best þessar auðlindir þannig að almenn sátt ríki í þjóðfélaginu. Verkefnið er sem sagt að finna rétta skurðarpunktinn milli náttúruverndar og hagnýtingar - því að bæði sjónarmiðin ber að virða.
Til að ná þessari breiðu sátt í þjóðfélaginu er nauðsynlegt að mörkuð sé skýr stefna til langs tíma og í iðnaðarráðuneytinu hefur verið lögð mikil vinna í að undirbyggja þessa stefnumörkun.
Nú liggja fyrir drög að heildstæðri orkustefnu fyrir Ísland þar sem lagt er til grundvallar „að orkubúskap Íslands verði hagað með sjálfbærum hætti, samfélaginu og almenningi til hagsbóta.“
Á alþingi liggur fyrir frumvarp til laga um orkuskiptaáætlun í samgöngum – og þar eru markmið sem eru hvoru tveggja metnaðarfull en um leið raunhæf.
Breytingar á Vatnalögum liggja fyrir alþingi og í þeim er byggt á þeirri samfélagssátt sem ríkt hefur um áratuga skeið.
Stefnt er að því að frumvarp til laga um verndar- og nýtingaráætlun vegna virkjunar fallvatna og háhitasvæða verði afgreitt á þessu vorþingi.
Vinna við rammaáætlun um nýtingu vatnsafls og jarðvarma hefur nú staðið yfir í mörg ár og er nú er farið að hylla undir lok þeirrar vinnu. Í framhaldinu er stefnt að því að þingsályktun um flokkun virkjanakosta verði lögð fyrir alþingi næsta haust og þingið taki málið til meðferðar.