Nýstofnuðu Atvinnuþróunarfélagi Suðurnesja er ætlað að snúa vörn í sókn!
Atvinnuástand á Suðurnesjum er ekki ásættanlegt og eru ýmsar ráðagerðir uppi hvernig megi ráða bót á því. Atvinnuþróunarfélag Suðurnesja var formlega sett á laggirnar 27. apríl og leggja iðnaðarráðuneytið og Byggðastofnun því til 20 mkr. á ári. Samband sveitarfélaga á Suðurnesjum aflar mótframlaga og sér að öðru leyti um fjármögnun starfseminnar.
Verkefni félagsins verða fjölbreytt á sviði atvinnu og byggðaþróunar auk verkefna á sviði nýsköpunar. Atvinnuþróunarfélag Suðurnesja mun taka þátt í og vera í forystu um uppbyggingu þekkingarseturs á Suðurnesjum en gert er ráð fyrir að í því samstarfi taki þátt stofnanir stoðkerfisins sem starfa á vegum ráðuneyta, menntastofnanir innan og utan svæðis sem og aðrir aðilar sem stutt geta við atvinnulíf og vöxt á svæðinu.
Gert er ráð fyrir að fjórir atvinnuráðgjafar starfi hjá Atvinnuþróunarfélaginu og eru miklar vonir bundnar við að starfsemin muni styðja við og flýta fyrir atvinnuuppbyggingu á Suðurnesjum.