Hoppa yfir valmynd
28. apríl 2011 Umhverfis-٫ orku- og loftslagsráðuneytið

Viðurkenningar fyrir starf að umhverfismálum

Þóra Ellen Þórhallsdóttir og umhverfisráðherra
Náttúruverndarviðurkenning Sigríðar í Brattholti

Svandís Svavarsdóttir umhverfisráðherra afhenti Þóru Ellen Þórhallsdóttur Náttúruverndarviðurkenningu Sigríðar í Brattholti við athöfn í Þjóðmenningarhúsinu í dag. Við sama tækifæri fengu Farfuglaheimilin í Reykjavík afhentan Kuðunginn, umhverfisviðurkenningu umhverfisráðuneytisins, og nemendur Þjórsárskóla voru útnefndir Varðliðar umhverfisins.

Náttúruverndarviðurkenning Sigríðar í Brattholti

Þetta er í annað sinn sem Náttúruverndarviðurkenning Sigríðar í Brattholti er veitt. Með viðurkenningunni er lögð áhersla á mikilvægi framlags almennings til náttúruverndar og er viðurkenningin veitt einstaklingi sem hefur unnið markvert starf á sviði náttúruverndarmála. Fram kom í máli umhverfisráðherra að Þóra Ellen Þórhallsdóttir væri vísindamaður sem hefði unnið merkar rannsóknir á gróðri Íslands og miðlað þekkingu sinni, ekki bara til stúdenta, heldur til þjóðarinnar allrar með fyrirlestrum og fjölmiðlaþátttöku. Hún væri óhrædd við að koma fram með vísindaleg rök til verndar náttúru Íslands, þó það hafi ekki alltaf fallið að ríkjandi skoðunum. Þá hafi vinna hennar við landslagsmat markað tímamót varðandi vernd náttúru hér á landi.

Kuðungurinn

Farfuglaheimilin í Reykjavík fengu Kuðunginn fyrir framlag sitt til umhverfismála á síðastliðnu ári.  Að þessu sinni voru sautján fyrirtæki og stofnanir tilnefnd til Kuðungsins.

Farfuglaheimilin eru einu umhverfisvottuðu gististaðirnir á höfuðborgarsvæðinu og eru ásamt tveimur sænskum farfuglaheimilum, einu farfuglaheimilin á Norðurlöndunum með Svansvottun. Gestum farfuglaheimilanna í Reykjavík er veitt fræðsla um umhverfismál og góða umgengni við náttúruna og þeir hvattir til að ganga, hjóla eða nýta sér almenningssamgöngur. Einnig fá gestir leiðbeiningar um vistakstur og vakin er sérstök athygli á banni við akstri utan vega. Við innkaup er innlend og helst vottuð vara valin og úrgangur er lágmarkaður með því að hafna óþarfa umbúðum. Það rusl sem til fellur er flokkað í fjórtán flokka í samstarfi við Gámaþjónustuna. Markvisst er fylgst með vatns- og orkunotkun og einungis er boðið upp á umhverfisvottað þvottaefni og sápur. Á kaffihúsum Farfugla er eingöngu notað lífrænt fair-trade kaffi og leitast er við að bjóða upp á sem mest af innlendum og lífrænt ræktuðum matvælum í morgunmat. Fram kom í máli Sigþrúðar Jónsdóttur, formanns valnefndar, að farfuglaheimilin uppfylltu allar kröfur sem gerðar væru til handhafa Kuðungsins og vel það. Starfsemi þeirra væri gloppulaus og umhverfismál væru óaðskiljanlegur þáttur í rekstri þeirra.

Í valnefnd Kuðungsins sátu að þessu sinni þau Sigþrúður Jónsdóttir fyrir hönd umhverfisráðherra, Margrét Ingþórsdóttir fyrir Alþýðusamband Íslands, Ragnheiður Héðinsdóttir fyrir Samtök atvinnulífsins og Morten Lange fyrir félagasamtök á sviði umhverfismála. Verðlaunagripurinn Kuðungurinn var í ár búinn til af Ingunni Elínu Kristinsdóttur myndlistarmanni. 

Varðliðar umhverfisins

Nemendur í umhverfisnefnd Þjórsárskóla í Skeiða- og Gnúpverjahreppi voru útnefndir Varðliðar umhverfisins fyrir útgáfu ruslabæklings fyrir börn á öllum aldri. Bæklingnum verður dreift á öll heimili og sumarbústaði í hreppnum. Markmið nemendanna með verkefninu er að leggja sitt af mörkum til að auka og stuðla að skilningi á breyttu fyrirkomulagi sorphirðu í sveitarfélaginu sem ætlað er að auka endurvinnslu úrgangs.

Farfuglaheimilin í Reykjavík
Kuðungurinn
Umhverfisráðherra og fulltrúi Landverndar með nemendum úr Þjórsárskóla
Varðliðar umhverfisins

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta