Hoppa yfir valmynd
2. maí 2011 Félags- og vinnumarkaðsráðuneytið, Heilbrigðisráðuneytið

Velferðarráðherra á fundi félagsmálaráðherra OECD

Frá setningu OECD-fundarins í morgun
Angel Gurría, aðalritari OECD og Ursula von der Leyen, vinnu- og félagsmálaráðherra Þýskalands við setningu ráðherrafundarins. (Mynd af vef OECD)

Guðbjartur Hannesson velferðarráðherra flutti opnunarávarp á tveggja daga fundi félagsmálaráðherra aðildarríkja Efnahags- og framfarastofnunarinnar (OECD) sem hófst í París í dag. Rætt er um brýnustu viðfangsefni þjóða á sviði velferðarmála við endurreisn og uppbyggingu í kjölfar efnahagskreppu.

Unnið hefur verið að undirbúningi fundarins undanfarin tvö ár. Markmið hans er að skapa vettvang fyrir félagsmálaráðherra aðildarríkjanna til að eiga skoðanaskipti um áhrifin af banka- og fjármálakreppunni á framvindu félags- og velferðarmála. Einnig að leggja línur Frá fundi félagsmálaráðherra OECD-ríkjanna í París 2011um brýnustu viðfangsefni þjóðanna á þessum sviðum við endurreisn og uppbyggingu í kjölfar kreppunnar. Fyrst og fremst er fjallað um fjölskyldustefnu og velferð barna, umönnunarstefnu, jafnrétti kynjanna, lífeyriskerfi og starfslok á vinnumarkaði, vinnumál, félagslega húsnæðisstefnu, samstöðu kynslóðanna. Velferðarmálin í víðum skilningi eru þannig til umræðu.

Þjóðverjar fara með stjórn fundarins að þessu sinni ásamt Áströlum og Íslendingum og er Guðbjartur því annar tveggja varaforseta fundarins. Fundurinn í dag hófst með ávarpi aðalritara OECD, herra Angel Gurría. Hann sagði að bati í kjölfar kreppunnar væri kominn á skrið en lagði áherlsu á að árangurinn væri háður því hvernig stjórnvöldum tækist að fást við félagslegar afleiðingar hennar.

Fulltrúum annarra ríkja lék forvitni á að fræðast um reynslu Íslendinga af kreppunni og var Guðbjarti Hannessyni því boðið að flytja ávarp við opnun ráðherrafundarins í dag. Í ávarpi sínu rakti ráðherra umfang og áhrif bankahrunsins á Íslandi og megináherslur stjórnvalda í kjölfarið til að bregðast við félagslegum afleiðingum kreppunnar: „Þótt aðstæður meðal aðildarríkja OECD séu um margt ólíkar er áberandi hve vandamál þessara þjóða eru samt svipuð þar sem víðast er glímt er við atvinnuleysi, vaxandi tekjumun og samfélagslegan ójöfnuð. Brýnustu viðfangsefnin hjá okkur, ráðherrum félagsmála, eru að vinna gegn langtímaatvinnuleysi og neikvæðum afleiðingum þess, tryggja fólki öruggt húsnæði þrátt fyrir erfiðar fjárhagsaðstæður og vinna gegn fátækt,“ sagði ráðherra meðal annars í ávarpi sínu.

Alls eiga 34 ríki aðild að OECD sem mörg hver eru meðal fjárhagslega best settu þjóða heims. Önnur ríki sem eru skemmra á veg komin eiga einnig aðild að samtökunum og má þar nefna Mexíkó, Chile og Tyrkland.

Stefnt er að því að ráðherrar aðildarríkjanna birti á morgun sameiginlega yfirlýsingu um niðurstöður fundarins þar sem fjallað verður um helstu áherslur og markmið í velferðarmálum framtíðarinnar.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta