Katrín Júlíusdottir orkumálaráðherra flytur ræðu á fundi orkumálaráðherra Evrópusambands- og EES-ríkjanna
Fundurinn orkumálaráðherrana er haldinn í Búdapest 2. og 3. maí og er yfirskrift hans EnergyRoadmap 2050 og snýst hann um leiðir til að minnka losun gróðurhúsalofttegunda. Markmið ESB er að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda frá orkuframleiðslu um 90% fram til ársins 2050 með vaxandi áherslu á endurnýjanlega orkugjafa.
Katrín Júlíusdóttir ávarpaði fundinn og kom fram í máli hennar að 40% af losun gróðurhúsalofttegunda á Íslandi komi frá bílum og fiskiskipaflotanum en raforkuframleiðsla og húshitun er nánast án losunar. Stærsta áskorunin fyrir Ísland sé því að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda í samgöngum og því hafi stjórnvöld sett upp orkuskiptaáætlunina GRÆNA ORKAN. Katrín benti einnig á mikilvægi þess að stjórnvöld skilgreini ekki hvaða tækni eða orkugjafar verði fyrir valinu heldur skapi hagstætt umhverfi fyrir orkuskiptin með sköttum og öðrum aðgerðum. Katrín fjallaði einnig um klasasamstarf það sem nú á sér stað á Íslandi innan Grænu orkunnar en þar vinna einkaaðilar með hinu opinbera að stefnumótun vegna orkuskipta í samgöngum. Katrín endaði síðan mál sitt á því að óska eftir nánara samstarfi Evrópuríkja í þessum málaflokki.