Kortlagning skapandi greina - ótvírætt hagrænt gildi
Skýrsla um kortlagningu hagrænna áhrifa skapandi greina var kynnt á málstofu í Háskóla Íslands í dag. Utanríkisráðuneytið er aðili að verkefninu sem leitt er af mennta og menningarmálaráðuneytinu og samráðsvettvangi skapandi greina. Rannsóknarmiðstöð skapandi greina annaðist gerð skýrslunnar.
Helstu niðurstöður eru þær að skapandi greinar veltu 189 milljörðum árið 2009. Útflutningstekjur skapandi greina voru um 24 miljarðar árið 2009 eða um 3% af heildarútflutningstekjum þjóðarinnar. Velta skapandi greina hefur haldist nokkuð stöðug þrátt fyrir efnahagslega lægð í öðrum atvinnugreinum og ársverkum hefur fjölgað. Rannsóknin leiðir í ljós ótvíræðan hagrænan ávinning skapandi greina og undirstrikar þá auðlind sem fólgin er í menningar- og listtengdri starfsemi. Með því að kortleggja hagrænan ávinning er ekki verið að kasta rýrð á hið óáþreifanlega gildi menningar og lista, sem aldrei verður metið til fjár, heldur er verið að leiða fram í dagsljósið áður ókannaða stoð undir atvinnulíf þjóðarinnar.
Kortlagning hefur að markmiði að auðvelda mat á vægi þessara greina og bera saman við aðrar greinar sem hluta af þjóðhagsreikningi okkar. Kortlagningin mun nýtist stjórnvöldum, öðrum opinberum aðilum og atvinnugreininni sjálfri við hvers konar stefnumótun í atvinnumálum.
Skýrslan er skrifuð í kjölfar kynningar á tölulegum niðurstöðum rannsóknar á hagrænum áhrifum skapandi greina, sem fram fór 1. desember 2010 í Bíó Paradís. Með skýrslunni er lokið vinnu við þessa tilteknu rannsókn. Auk samráðsvettvangs skapandi greina, mennta- og menningarmálaráðuneytis, og utanríkisráðuneytis stóðu iðnaðarráðuneyti, efnahags- og viðskiptaráðuneyti, fjármálaráðuneyti og Íslandsstofa að verkefninu.
Skýrsluna um kortlagningu hagrænna áhrifa skapandi greina má lesa hér