Mikilvægi skapandi greina staðfest ... næst er að greina stoðkerfi þeirra
Í vikunni var kynnt skýrsla þar sem hagræn áhrif skapandi greina eru kortlögð og metin. Í skýrslunni kemur mikilvægi þeirra sem atvinnugreinar berlega í ljós. Skapandi greinar eru einn af höfuðatvinnuvegum þjóðarinnar og veltir að minnsta kosti 189 milljörðum króna á ári og skapar um 10.000 störf. Útflutningstekjur skapandi greina fara stöðugt vaxandi og nam útflutningurinn á árinu 2009 um 24 milljörðum og kemur stærstur hlutinn frá tölvuleikjaiðnaðinum. Í sambærilegum skýrslum frá Norðurlöndum og Evrópu kemur fram að efnahagslegt mikilvægi skapandi greina fari stöðugt vaxandi og innan þeirra sé hvað mest aukning hagvaxtar.
Á næstu mánuðum verður unnin úttekt á stoðkerfi skapandi greina á vegum iðnaðarráðuneytisins, og mun það gefa skýrari mynd af rekstrarskilyrðum fyrirtækja og einyrkja í skapandi greinum.
Jafnframt er mikilvægt að gagnasöfnun um skapandi greinar verði komið í fastan farveg svo að upplýsingar um þróun greinanna séu aðgengilegar fyrir stjórnvöld og alla hagsmunaaðila.