Aukið samstarf opinberra háskóla
Opinberu háskólarnir fjórir, Háskóli Íslands, Háskólinn á Akureyri, Landbúnaðarháskóli Íslands og Hólaskóli-Háskólinn á Hólum hafa gert með sér samkomulag um sameiginlega stoðþjónustu á ákveðnum sviðum.
Opinberu háskólarnir fjórir, Háskóli Íslands, Háskólinn á Akureyri, Landbúnaðarháskóli Íslands og Hólaskóli-Háskólinn á Hólum hafa gert með sér samkomulag um sameiginlega stoðþjónustu á ákveðnum sviðum. Rektorar skólanna skrifuðu undir samkomulag þessa efnis að viðstöddum mennta- og menningarmálaráðherra, Katrínu Jakobsdóttur, þann 9. maí. Fyrsta skref samstarfsins verður sameiginlegt upplýsingakerfi fyrir nemendur og um kennslu. Um leið verður tekið upp samræmt kerfi fyrir akademískt mat á starfsmönnum og varðandi ráðningar, framgang og launabreytingar. Stefnt er að því að víkka út samninginn til fleiri sviða stoðþjónustunnar. Þar er meðal annars horft á gæðaviðmið og gæðaeftirlit í meistara- og doktorsnámi, stuðning við kennara og kennslufræðilega ráðgjöf og þjálfun. Einnig er unnið að uppbyggingu á tæknilausnum sem auðvelda fjarfundi, fjarnám og þráðlaus netsamskipti. Hér er um tímamótasamkomulag að ræða og er því ætlað að styrkja háskólana fjóra með því að efla enn frekar stoðþjónustu þeirra og tæknilega innviði sem auðvelda frekara samstarf.
Þá eru hafnar viðræður milli akademískra starfsmanna skólanna um samstarf á sviði námsframboðs. Þetta verður meðal annars gert með samkennslu og auðveldara aðgengi nemenda að námskeiðum milli skóla. Markmiðið er að nýta betur þann mannauð sem skólarnir búa yfir og auka valfrelsi nemenda.
Samstarf opinberra háskóla byggir á stefnu þar að lútandi sem sett var af mennta- og menningarmálaráðherra í ágúst síðastliðnum. Þá var skipuð sérstök verkefnisstjórn en í henni sitja rektorar skólanna ásamt fleirum.
Frá undirritun samstarfssamingsins 9. maí.
- Sjá nánar á vef samstarfsins: http://www.samstarf.hi.is/ og á vef mennta- og menningarmálaráðuneytis.