Hoppa yfir valmynd
9. maí 2011 Félags- og vinnumarkaðsráðuneytið

Óskað umsagna um drög að umfjöllun fyrir skýrslu um mannréttindamál

Vinnuhópur á vegum innanríkisráðuneytisins og fleiri ráðuneyta vinnur nú að gerð skýrslu um stöðu mannréttindamála á Íslandi. Skýrslunni á að skila í sumar og óskar vinnuhópurinn eftir umsögnum um meðfylgjandi drög að umfjöllunarefni skýrslunnar. Óskað er eftir þeim umsögnum eigi síðar en 13. maí á netfangið [email protected].

Sameinuðu þjóðirnar standa fyrir almennri úttekt á stöðu mannréttindamála í aðildarríkjunum og var vinnuhópur ráðuneytisins skipaður til að halda utan um verkefnið hér á landi. Innanríkisráðuneytið stýrir verkefninu og ber ábyrgð á vinnslu þess en skýrslu Íslands á að skila eigi síðar en 4. júlí næstkomandi.

Mikil áhersla er lögð á samráð við frjáls félagsamtök og almenning í þeirri vinnu sem fer fram í tengslum við verkefnið. Fyrir liggja drög að kaflaskipan fyrir skýrslu Íslands sem endurspegla helstu efnistök skýrslunnar. Í samræmi við leiðbeiningar frá skrifstofu mannréttindafulltrúa Sameinuðu þjóðanna er meðal annars gert ráð fyrir að skýrslan hafi að geyma lýsingu á lagaramma, því hvernig mannréttindum er framfylgt í landinu, hver stefna yfirvalda er í þessum málaflokki auk helstu áskorana. 

Hér að neðan má sjá drög að kaflaskipan fyrir skýrslu Íslands. Þau hafa verið send ýmsum frjálsum félagasamtökum og háskólum og þeim gefinn kostur á að senda ráðuneytinu ábendingar um önnur efni og atriði sem æskilegt þykir að tekin séu með í skýrsluna, en er ekki að finna í drögunum. Vakin er sérstök athygli á því að skýrsla Íslands má ekki vera lengri en 20 blaðsíður.

Óskað er eftir að ábendingar eða athugasemdir verði sendar á tölvunetfangið [email protected] eigi síðar en föstudaginn 13. maí næstkomandi.

Gert er ráð fyrir að drög að skýrslunni sjálfri liggi fyrir 16.-22. maí og að þá verði hún sett á vef ráðuneytisins til kynningar og athugasemda. 

Nánari upplýsingar um málið veita Rósa Dögg Flosadóttir og María Rún Bjarnadóttir, sérfræðingar á skrifstofu mannréttinda og sveitarfélaga í innanríkisráðuneytinu.

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta