Hoppa yfir valmynd
11. maí 2011 Utanríkisráðuneytið

Formennsku Íslands á öryggissamvinnuvettvangi ÖSE lokið

SSk-og-ID-a-FSC-fundi-i-Vin
SSk-og-ID-a-FSC-fundi-i-Vin

Fjögurra mánaða formennsku Íslands á öryggissamvinnuvettvangi Öryggis- og samvinnustofnunar Evrópu, ÖSE,  lauk í dag í Vín. Áherslur í formennsku Íslands voru á friðsamlega lausn deilumála, afvopnun og takmörkun vígbúnaðar. Einkum var lögð áhersla á að koma í veg fyrir útbreiðslu gereyðingarvopna,  smá- og léttvopna; gagnsæi, þátttöku kvenna í friðarstarfi og stuðning við mannúðarlög og mannréttindi.

Fastanefnd Íslands í Vínarborg sinnti formennskunni. Auk þess að stjórna vikulegum fundum samvinnuvettvangsins og vinnuhópa stóð formennskan að ráðstefnum um öryggismál. Fundað var um traustvekjandi aðgerðir á sviði hermála, takmörkun hefðbundins vígbúnaðar og uppfærslu svokallaðs Vínarskjals frá 1999 um traustvekjandi aðgerðir og um framkvæmd skuldbindinga sem þátttökuríkin hafa tekist á hendur samkvæmt Vínarskjalinu. Fjallað var um tengsl mannréttinda og öryggis á sérstakri ráðstefnu, með áherslu á ályktun öryggisráðs SÞ nr. 1325 um konur, frið og öryggi og aðkomu kvenna að friðarferlum. Haldinn var sérstakur fundur og málstofa um einkavædd hernaðar- og öryggisfyrirtæki og siðareglur fyrir slík fyrirræki. Þá var haldin ráðstefna um eftirfylgni við ályktun öryggisráðs Sameinuðu þjóðanna nr. 1540 um að hefta útbreiðslu gereyðingarvopna. 

Formennska Íslands undirbjó ennfremur sérstaka ráðstefnu háttsettra fulltrúa um hermálastefnu í ljósi nútíma ógna og stöðugra breytinga í öryggismálum en ráðstefnan verður haldin í lok maí. Formennska Íslands vann einnig að undirbúningi endurskoðunarráðstefnu ÖSE á öryggismálum sem haldin verður í lok júní.

Þá var í formennskutíð Íslands ákveðið að ÖSE-ríki stefni að eyðingu umframvopnabirgða, útrunninna og úreltra skotfæra, fremur en að setja þau í geymslu eða selja. Tilgangurinn er sá að koma í veg fyrir að slík vopn valdi mannskaða, lendi í höndum hryðjuverkamanna eða annarra glæpamanna. Þessi ákvörðun aðildarríkja ÖSE er sú fyrsta sinnar tegundar.

Á öryggissamvinnuvettvangi ÖSE starfa öll 56 aðildarríki stofnunarinnar og þar fer fram umræða og ákvarðanataka um málefni sem varða samvinnu í öryggismálum og traustvekjandi aðgerða á sviði hermála. Ákvarðanir eru bindandi fyrir þátttökuríki ÖSE. Ítalía hefur nú tekið við formennsku af Íslandi.

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta