Eigendastefna í mótun
Harpa, tónlistar- og ráðstefnuhús, verður opnuð formlega í kvöld með glæsilegri opnunardagskrá sem hefst kl. 18 og verður sjónvarpað beint í Ríkisútvarpinu.
Harpa, tónlistar- og ráðstefnuhús, verður opnuð formlega í kvöld með glæsilegri opnunardagskrá sem hefst kl. 18 og verður sjónvarpað beint í Ríkisútvarpinu. Harpa verður aðsetur Sinfóníuhljómsveitar Íslands og Íslensku óperunnar auk þess að vera aðstaða fyrir margháttaðan tónlistarflutning og ráðstefnuhald. Tónlistar- og ráðstefnuhúsið Harpa er í eigu ríkis og Reykjavíkurborgar sem tóku alfarið við verkefninu og ákváðu að ljúka byggingunni snemma árs 2009. Margir hafa lagt hönd á plóg við að ljúka verkinu og hefur húsið vakið athygli víða um heim.
Á næstu vikum munu ríkið og Reykjavíkurborg kynna drög að stefnu sinni sem eigendur hússins, en hún hefur verið í undirbúningi um nokkurt skeið. Verða markmið eigenda með rekstri Hörpu og hvernig staðið verður að því að móta tónlistarstefnu kynnt sérstaklega fyrir ýmsum samtökum tónlistarmanna og ferðaþjónustunnar og óskað umsagna frá þeim fyrir 15. júní nk. Í framhaldi verður unnið úr athugasemdum og stefnan kynnt á vef Hörpu og hún samþykkt formlega.
Starfshópur skipaður fulltrúum mennta- og menningarmálaráðherra, utanríkisráðherra, fjármálaráðherra og Reykjavíkurborgar tekur til starfa nú í maí með það verkefni að skoða og gera tillögur um hvernig ríkið og Reykjavíkurborg geta með bestum hætti búið formlega um Hörpu. Hópurinn skal hafa samráð við helstu hagsmunaaðila úr menningar- og tónlistarlífi og ferðaþjónustu og á að skila tillögum fyrir 30. september 2011.